Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gunnhildur Yrsa: „Þessar ungu þær þora“

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

Gunnhildur Yrsa: „Þessar ungu þær þora“

20.09.2021 - 15:29
„Það er alltaf gaman að mæta svona góðum liðum og gaman að byrja keppnina á þessu og heimaleik, svo við erum ánægðar,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fyrir fyrsta leikinn í undankeppni HM á morgun. Ísland mætir Hollandi kl. 19:45 og verður leikurinn sýndur beint á RÚV.

Holland varð Evrópumeistari árið 2017 og er því ríkjandi Evrópumeistari og er silfurliðið á HM 2019. Þetta er fyrsti leikur Íslands í riðlinum en Holland er búið að spila einn leik þegar liðið gerði jafntefli við Tékkland fyrir helgi. 

„Þetta verður held ég skemmtilegur riðill eins og við sáum í síðasta leik þegar Holland og Tékkland gerðu jafntefli. Þannig að það getur allt gerst og ég held að hver einasti leikur verði úrslitaleikur í þessari keppni,“ segir Gunnhildur. 

Hvernig er að byrja undankeppni fyrir stórmót þegar þið eruð um leið að undirbúa ykkur fyrir EM næsta sumar? 
„Við höfum bara lagt það þannig upp að við einbeitum okkur að undankeppni HM og svo tökum við það með okkur inn á EM. Við getum ekkert verið að hugsa um EM núna þegar við erum að reyna komast á HM en hver leikur er náttúrulega bara undirbúningur fyrir næsta leik þannig að þetta er eiginlega allt það sama,“ segir Gunnhildur.

„Ætlum okkur sigur í hverjum einasta leik og vonandi endar það með ferð til Ástralíu“

Íslenska kvennaliðið hefur aldrei komist á HM áður en HM verður næst í Ástralíu og Nýja Sjálandi árið 2023. „Það er svakalegt hungur og auðvitað viljum við komast á HM. Ég hef verið í Ástralíu og þetta er geggjað og auðvitað erum við til í að fara þangað. En við tökum bara einn leik í einu  og ætlum okkur sigur í hverjum einasta leik og vonandi endar það með ferð til Ástralíu.“

Gunnhildur býrst við hörkuleik á morgun. „Þær eru með geggjað lið, eru Evrópumeistarar og koma með sjálfstraust inn í það. Þær eru náttúrulega búin að vera á Ólympíuleikunum og mikið saman en við þurfum bara að loka á þær, vera þéttar og þora. Þora að sækja og vera með boltann og spila okkar leik og þá getur allt gerst.“

Ekki með marga landsleiki en spilað mikið með sínum liðum

Gunnhildur er fyrirliði íslenska liðsins í fjarveru Söru Bjarkar Gunnarsdóttur sem á von á barni. „Það er alltaf missir af Söru hún er frábær leikmaður. En það eru góðir leikmenn sem koma í hennar stað og allir eiga hrós skilið. Þetta eru allt leiðtogar og karakterar og ég er bara spennt fyrir leiknum.“

Yngri leikmenn hafa orðið lykilmenn liðsins bara undanfarið rúmt ár og Gunnhildur segir mikilvægt að þær séu komnar með nokkra leiki undir beltið fyrir undankeppnina. „Það er geggjað og þó þær séu ekki komnar með marga landsleiki þá hafa þær spilað heillengi með sínum félagsliðum og eru með mikla reynslu og þessar ungu þær þora. Það er alltaf gaman að spila með þeim og maður getur lært heilmikið af þeim.“

Viðtalið við Gunnhildi má sjá í spilaranum hér að ofan. Leikur Íslands og Hollands er á morgun klukkan 18:45 en HM stofan hefst klukkan 18:10.