Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Guðmundi sagt upp hjá Melsungen

epa08942652 Iceland's head coach Gudmundur Gudmundsson reacts during the match between Algeria and Iceland at the 27th Men's Handball World Championship in Cairo, Egypt, 15 January 2021.  EPA-EFE/Khaled Elfiqi / POOL
 Mynd: EPA

Guðmundi sagt upp hjá Melsungen

20.09.2021 - 10:02
Guðmundi Guðmundssyni, þjálfara karlalandsliðsins í handbolta, hefur verið sagt upp sem þjálfara Melsungen í þýsku úrvalsdeildinni. Félagið greindi frá þessu í morgun.

Melsungen er í þriðja neðsta sæti deildarinnar með eitt stig eftir þjá leiki. Guðmundur tók við liðinu á síðast ári en liðið hafnaði í áttunda sæti á síðustu leiktíð. Hjá Melsungen eru þrír Íslendingar. Þeir Arnar Freyr Arnarsson, Elvar Örn Jónsson og Alexander Petersson.

Í tilkynningu frá félaginu segir að það hafi ekki verið merki um að liðið væri að þróast ef miðað væri við síðustu leiktíð. Árangurinn í fyrstu leikjum tímabilsins væri langt frá því að vera viðunandi og þá hafi síðasta tímabil sömuleiðis verið langt undir væntingnum. Því hafi verið ákveðið að Guðmundur yrði látinn fara. „Við viljum þakka Guðmundi fyrir sína skuldbindingu við liðið og óskum honum hins allra besta bæði í starfi og einkalífi,“ segir í tilkynningunni. Þá kemur fram að leitin að eftirmanni hans standi nú yfir en aðstoðarþjálfari liðsins Arjan Haenen stýri liðinu í millitíðinni.