Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fréttir: Rauðar tölur í kauphöllinni

20.09.2021 - 12:05
Verð hlutabréfa í Kauphöllinni hefur lækkað mikið í öllum félögum á markaði í dag. Einnig hefur orðið vart við lækkun í Bandaríkjunum og Evrópu sem rakin er til yfirvofandi gjaldþrots kínversks fasteignarisa. Greinandi segir að smæð markaðarins hér á landi og kosningaskjálfti ýti enn frekar undir lækkun hér.

 

Kjósendur allra flokka eru á einu máli um að heilbrigðismál sé mikilvægasta málefnið fyrir komandi alþingiskosningar. Umhverfismál skipa meiri sess í huga kjósenda en nokkurn tíma áður. 

Að minnsta kosti sex létust og hátt í þrjátíu særðust í skotárás í háskóla í Rússlandi í dag. Árásarmaðurinn, nemandi í skólanum, særðist alvarlega í viðureign við lögregluna.

Vísbendingar eru um að flúor í heyfeng bænda í Reyðarfirði sé svo mikill að sumt heyið megi ekki gefa jórturdýrum á meðan þau eru mjólkandi. Flúorið kemur frá álveri Fjarðaáls og mældist hátt í sumar vegna þurrka og hægviðris.

Verið er að leggja lokahönd á byggingu nýs áfangaheimilis Kvennaathvarfsins og fyrstu íbúarnir flytja inn á næstu dögum. Framkvæmdastýra segir að þörf hafi verið fyrir slíkt heimili í áratugi.

Víkingur komst á toppinn í úrvalsdeild karla í fótbolta í gærkvöld. Mikil dramatík var á lokamínútunum hjá toppliðunum tveimur.
 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV