Forða ungfýlum frá ótímabærum dauða við Hringveginn

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Forða ungfýlum frá ótímabærum dauða við Hringveginn

20.09.2021 - 15:28

Höfundar

Nokkrir sjálfboðaliðar hafa forðað meira en tvö hundruð fýlsungum frá ótímabærum dauða við hringveginn í haust. Handklæði og pappakassar koma þar að góðum notum.

Það er algengt snemma á haustin að sjá fjölda dauðra fýla á þjóðvegi eitt undir Eyjafjöllum og við Vík í Mýrdal enda liggur vegurinn á milli varpsvæða fýlsins og hafsins. 

Flytja fýlana að næsta læk eða á

Landinn slóst í för með Andreas, Júlíu og Arianne sem hafa í haust haldið nokkrum sinnum frá Reykjavík á Suðurlandið til að forða fýlsungunum frá hringveginum. „Þessir fýlsungar hafa stokkið úr hreiðrum sínumn en hafa lent á götunni. Þeir vilja auðvitað lenda út í sjó eða á sem ber þá út í sjó. Og um leð og þeir lenda geta þeir varla gert neitt; illa labbað og illa flogið af stað, sérstaklega ef þeir lenda í háu grasi,“ segir Andreas Guðmundsson. Og svo eru girðingarnar fyrir? „Já, nákvæmlega svo það eru margir ungar sem hefur verið keyrt yfir – því miður. „Okkar missjón er semsagt að bera þá út að á eða sjó svo þeir geti lifað lífi sínu.“

„Þeir verja sig auðvitað, þeir æla á mann og þess vegna erum við með handklæði og svo róast þeir í myrkri og þess vegna erum við kassa sem við setjum þá í,“ segir Júlía Guðmundsdóttir

Þá kikkar lífið inn

Í haust hefur sjálfboðaliðum tekist að forða yfir 200 ófleygum fýlsungum frá ótímabærum dauða við hringveginn. „Um leið og maður opnar boxið og maður er kominn út á á þá kikkar lífið inn hjá þeim, sem eru dauðvona á veginum, það er ofsalega gefandi,“ segir Arianne Gähwiller.