Farbann vegna hópnauðgunar staðfest í Landsrétti 

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms um að karlmaður skuli sæta farbanni til 11.nóvember næstkomandi. Manninum er gefið að sök að hafa nauðgað konu ásamt félaga sínum þann 13.maí síðastliðinn.

Lögfræðingur mannsins skaut málinu til Landsréttar með kæru 16. september 2021, þar sem kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness frá því 16. september 2021. Í þeim úrskurði var manninum gert að sæta farbanni allt til fimmtudagsins 11. nóvember 2021.

Málið snýst um kynferðisbrot þ.e. meinta nauðgun tveggja manna sem brotaþoli tilkynnti sjálf til lögreglu skömmu eftir miðnætti þann 13. maí 2021.

Kvaðst brotaþoli hafa verið, fyrr um kvöldið, á veitingastað en farið þaðan í fylgd manns sem hún hafi lýst en hann hafi boðið henni í samkvæmi. Hún hafi sagt að samskipti þeirra hafi farið fram á ensku og er hún hafi verið komin í íbúð hefði maðurinn beitt hana kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi.

Þegar maðurinn hafði lokið sér af hefði hann kallað á annan mann, sagt honum að brjóta einnig gegn henni kynferðislega, sem hann hafi þá gert. Hún taldi að mennirnir væru af erlendum uppruna, að því er fram kemur í úrskurði Landsréttar. Var brotaþoli með sjáanlega áverka eftir atvikið og fór hún í kjölfarið á bráðamóttöku Landspítalans til læknisskoðunar.

Í úrskurðinum kemur einnig fram að sóknaraðili segi að til rannsóknar sé ætlað brot sem er talið geta varðað við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn ákvæðinu varði allt að 16 ára fangelsi. Lögregla telji að fram sé kominn grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing sé lögð við.

Varnaraðili er erlendur ríkisborgari og tengsl hans við Ísland eru í samræmi við það. Að virtum öllum atvikum málsins telur Landsréttur að ætla megi að hann muni reyna að fara úr landi og koma sér undan málsókn og eftir atvikum fullnustu refsingar.

Því er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness staðfestur og um leið farbann mannsins til 11.nóvember.

Jón Agnar Ólason