Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bogi Nils: „Mjög mikilvægur áfangi“

20.09.2021 - 21:53
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Eftir 18 mánaða ferðatakmarkanir verður loks opnað á ferðalög bólusettra Evrópubúa til Bandaríkjanna snemma í nóvember næstkomandi. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að um gríðarlega jákvætt og mikilvægt skref sé að ræða fyrir rekstur félagsins.

Fréttirnar voru staðfestar í dag af Jeffrey Zients, ráðgjafa Joe Biden Bandaríkjaforseta í COVID-19 málefnum.

Viðskiptalíkan Icelandair hefur að sögn Boga Nils ekki verið að virka sem skyldi við núverandi aðstæður. Sá markaður þar sem félagið tengir Evrópu við Norður-Ameríku í gegnum Ísland hefur ekki verið að fullu virkur.

„Þegar þetta opnast þá fer leiðakerfið okkar og viðskiptalíkan að virka í heild sinni,“ sagði Bogi Nils í samtali í kvöldfréttum.

Bogi Nils sagði þarna bæði um að ræða Evrópubúa sem og Íslendinga. Því verði þarna gríðarlega jákvæð og mikilvæg breyting fyrir starfsemi Icelandair.