Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sprengjuárásir í Jalalabad í Afganistan

19.09.2021 - 05:48
epa09473778 Taliban forces patrol a zoo and amusement park in Kabul, Afghanistan, 17 September 2021. A humanitarian crisis and alleged widespread human rights violations are among the top challenges Afghanistan faces a month after the Taliban's lightning-fast capture of Kabul. The economic crisis threatens to push 97 percent of the 40 million people into poverty by mid-2022, the United Nations has warned.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Að minnsta kosti þrír fórust og yfir átján særðust í þremur sprengingum í borginni Jalalabad í austurhluta Afganistan í gær. Grunur leikur á að Talibanar hafi verið skotmörk tilræðismannana.

Þetta eru fyrstu sprengjuárásirnar í borginni frá því að þeir komust til valda í ágúst síðastliðnum. The Guardian hefur eftir embættismanni Talibana að ekki sé vitað hver standi að baki árásunum, né hvernig skipulagi þeirra var háttað.

Tvennt særðist einnig í sprengjuárás í höfuðborginni Kabúl. Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á tilræðinu en ISIS-K, Khorasan-héraðs armur samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki er talinn hafast við í fjalllendi Nangarhar-héraðs nærri landamærunum að Pakistan.

Samtökin lýstu í ágúst yfir ábyrgð á sprengjutilræði við Hamid Karzai flugvöllinn í Kabúl þar sem 95 Afganir og 13 bandarískir hermenn fórust.

Stofnun sem fylgist með og greinir hryðjuverk í heiminum segir samtökin vera þau fjórðu hættulegustu í veröldinni. Því er óttast að þau kunni að gera fleiri árásir í Afganistan þrátt fyrir að Talibanar segist hafa fellt hundruð liðsmanna þeirra fyrr á þessu ári.

Talibanar hétu því að tryggja frið og öryggi í landinu eftir valdatöku sína og tryggja að hryðjuverkasamtök hreiðruðu ekki um sig þar að nýju.