Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Selfoss áfram eftir jafntefli í Tékklandi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Selfoss áfram eftir jafntefli í Tékklandi

19.09.2021 - 17:51
Selfoss er komið áfram í aðra umferð Evrópubikarkeppninnar eftir jafntefli gegn tékkneska liðinu KH ISMM Koprivnice. Selfoss mætir RK Jeruzalem Ormos frá Slóveníu í næstu umferð.

Selfoss var í góðri stöðu fyrir leikinn í dag þar sem liðið vann fyrri leikinn 31-25, en sá leikur flokkaðist sem útileikur Selfyssinga. Tékkarnir mættu þó mun sterkari til leiks í dag og voru yfir stóran hluta fyrri hálfleiks. Selfyssingar misstu þá aldrei of langt frá sér og staðan í hálfleik var 14-14. 

Seinni hálfleikur var einnig afar jafn. Tékkarnir spiluðu nokkuð gróft og um tíma voru þeir þremur færri inn á vellinum, Selfyssingar voru ekki nógu klókir í að nýta sér liðsmuninn. Spenna færðist í leikinn þegar um tíu mínútur voru eftir en þá var tékkneska liðið komið tveimur mörkum yfir. Skömmu síðar náði ISMM Koprivnice þriggja marka forystu í stöðunni 28-25. Selfoss hélt þetta þó út og náði að minnka muninn í aðeins eitt mark þegar rúm mínúta var eftir af leiknum og jöfnuðu svo alveg í lokin. 

Lokatölur í Tékklandi í dag voru því 28-28 og Selfoss er komið áfram í aðra umferð Evrópubikarkeppninnar þar sem liðið mætir RK Jeruzalem Ormos frá Slóveníu.