Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Seinustu tveir strokumanna úr Gilboa handsamaðir

19.09.2021 - 01:51
epa08231209 A general view of the Israeli  separations barrier at the Palestinian town of A-Ram north of Jerusalem , in the background  the Israeli settlement of Neve Yaakov, 20 February 2020. Israeli Prime Minister Benjamin announced a plan to build up to 3,000 new houses in Jerusalem settlements.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
 Mynd: EPA
Ísraelsher hefur handsamað tvo palestínska menn sem voru í felum eftir flótta úr Gilboa-öryggisfangelsinu í norðurhluta Ísrael fyrr í mánuðinum. Þá hafa allir þeir sex sem sluppu úr rammgerðu fangelsinu náðst.

Þeir náðust með liðsinni hryðjuverkadeildar í borginni Jenín á Vesturbakkanum. 

Allir voru þeir sagðir tengjast hryðjuverkahópum en þeir grófu göng frá salerni í fangelsinu til að komast á brott. Við gröftinn eru þeir sagðir hafa notað ýmis verkfæri, þar á meðal skeiðar. Göngin enduðu við varðturn en ekki virðist nokkur hafa orðið flóttans var fyrr en eftir að mennirnir voru horfnir á braut.

Umfangsmikil leit hófst um leið og ljóst var hvað gerst hefði og fjölmennt herlið var sent á Vesturbakkann. Ísraelsmenn beittu drónum við leitina og settu upp vegatálma á helstu leiðum.

Allmargir voru handteknir í tengslum við rannsókn málsins en ísraelsk lögregla gómaði tvo strokumannanna 10. september skammt frá Nasaret og hina tvo daginn eftir.

Annar þeirra var sagður hafa skipulagt flóttann. Almenningur í Palestínu lýsti yfir stuðningi með föngunum og mótmælti slæmum aðbúnaði í ísraelskum fangelsum.

Í upplýsingum öryggissveita Ísraelshers kemur fram að mennirnir tveir sem nú náðust, gáfust upp eftir að sveitir hermanna umkringdu þá. Þeir eru báðir meðlimir í samtökunum Íslamska Jíhad, róttækrar hreyfingar Palestínumanna.