Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir Ástrala hafa verið alveg heiðarlega í garð Frakka

epa09469755 Minister of Defense of Australia Peter Dutton (L) and US Secretary of Defense Lloyd Austin (R) observe the US national anthem during an honor cordon ceremony at the Pentagon in Arlington, Virginia, USA, 15 September 2021. Dutton and Austin are expected to discuss relations with China and security issues in the Asia-Pacific region.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Peter Dutton, varnarmálaráðherra segir Ástrali hafa verið fullkomlega heiðarlega í samskiptum við Frakka í aðdraganda uppsagnar samnings um kaup á tólf kafbátum.

Franskir ráðamenn eru fokreið Áströlum og Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra sakar þá um lygar, undirferli, lítilsvirðingu og að þeir ásamt Bandaríkjamönnum hafi grafið undan trausti milli ríkjanna.

Dutton segir að Frökkum hafi verið gert ljóst að samningurinn þætti of kostnaðarsamur auk þess að hann var langt á eftir áætlun.

Hann kveðst skilja armæðu Frakka en að þetta viðhorf Ástrala hafi verið opinbert og á allra vitorði um langa hríð. Hann hafi rætt það sérstaklega við Florence Parly, franskan kollega sinn.

Dutton áréttar vilja Ástrala til áframhaldandi náinnar samvinnu við Frakka. Hið sama gera bandarískir ráðamenn sem vonast til viðræðna við þá þegar í næstu viku á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. 

Nauðsyn hafi verið að taka ákvörðun byggða á þjóðarhagsmunum Ástrala ekki síst vegna breyttra aðstæðna í heimshlutanum. Hann segir að ekki þurfi að hlaða bandaríska kjarnorkukafbáta sem hafi gert þá vænlegri kost en þá frönsku.

Áratugi taki að gera nýjan kafbátaflota Ástrala starfhæfan og því útilokar Dutton ekki að kaupa eða leigja báta af Bandaríkjamönnum eða Bretum.