Pacquiao stefnir á forsetaembættið

19.09.2021 - 13:59
epa09475975 (FILE) - Filipino boxing champion and senator Manny Pacquiao performs during the launch of his own crypto currency in Manila, Philippines 01 September 2019 (reissued 19 September 2021). Pacquiao accepted the nomination of his PDP-Laban party to run for president in 2022, as he said on 19 September 2021.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Filippseyski hnefaleikamaðurinn Manny Pacquiao lýsti því yfir í dag að hann ætli að bjóða sig fram til embættis forseta á næsta ári. Pacquiao kvað þetta rétta tímann til þess að taka við stjórnarkeflinu, þegar hann hlaut tilnefningu flokksfélaga sinna í dag. 

Pacquiao er í sama flokki og forsetinn Rodrigo Duterte. Flokkurinn hefur skipst í tvo póla, og er Pacquiao á andstæðum pól við forsetann og stuðningsmenn hans. 

Pacquiao á að baki glæstan hnefaleikaferil og fjölda heimsmeistaratitla. Hann hóf stjórnmálaferil sinn árið 2010 og náði þá kjöri í neðri deild þingsins, áður en hann hlaut kjör í öldungadeildina. Hann nýtur mikillar virðingar í heimalandinu fyrir örlæti sitt. Hann ólst upp við mikla fátækt en komst úr henni með hæfni sinni í hnefaleikum. Að sögn AFP fréttastofunnar eru líkur á að hann nýti hnefaleikaferilinn í kosningabaráttu sinni, auk baráttu sinnar gegn fátækt og spillingu. 

Pacquiao sagði flokksmönnum í dag að hann væri mótaður af fátækt á yngri árum. „Hafið þið nokkurn tímann upplifað að eiga ekkert að borða, að fá lánaðan pening frá nágrönnum eða vonast eftir afgöngum á matsölustöðum?“ spurði Pacquiao viðstadda. Þannig hafi æska hans verið.

Duterte vill varaforsetaembættið

Fráfarandi forsetinn Duterte ætlar að verða varaforsetaefni síns arms. Til stóð að Christopher Go yrði forsetaefni, en hann neitaði tilnefningunni á landsfundi flokksins fyrr í mánuðinum. Dóttir hans Duterte, Sara Duterte-Carpio, hefur einnig verið nefnd til sögunnar sem forsetaefni flokksins. Hún er ekki í sama flokki og faðir hennar, en þau færu að öllum líkindum fram saman. Hún er borgarstjóri í Davao, en faðir hennar gegndi því embætti áður.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV