Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nýkjörinn borgarstjóri Jóhannesarborgar lést í bílslysi

19.09.2021 - 05:22
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Jolidee Matongo, nýkjprinn borgarstjóri Jóhannesarborgar í Suður-Afríku lést í bílslysi í gær á leið heim af kosningafundi í Soweto með Cyril Ramaphosa forseta landsins.

Rétt rúmur mánuður er síðan Matongo, sem var 46 ára, var kjörinn borgarstjóri en forveri hans lést af völdum COVID-19 í júlí.

Forsetinn kveðst harmi sleginn, Matongo hafi verið fullur af orku og lífi meðan á fundinum stóð og að ekkert hafi búið íbúa Jóhannesarborgar undir að missa tvo borgarstjóra á stuttum tíma.

Matongo fæddist í Soweto og gekk í ungmennahreyfingu Afríska þjóðarráðins, ráðandi flokks Suður-Afríku, þrettán ára að aldri. Skrifstofa borgarstjóra segir nánar greint frá málinu síðar.   
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV