Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kvenkyns borgarstarfsmenn í Kabúl haldi sig heima

19.09.2021 - 17:05
epa09444880 Afghan women hold placards as they demand Taliban to protect their rights in Kabul, Afghanistan, 03 September 2021. The Taliban on 02 September, said they have completed the consultation on government formation but were yet to decide who would head the new Afghan administration that they would announce very soon. The last group of American soldiers departed Kabul around midnight on Monday, ending the longest of US wars that began after the Sep.11, 2001 attacks in America.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA - RÚV
Hamdullah Noman, nýr borgarstjóri Kabúl í Afganistan, hefur beðið kvenkyns borgarstarfsmenn um að halda sig heima, nema karlmenn geti ekki fyllt stöður þeirra. Fréttastofa BBC hefur eftir Noman að talibönum hafi þótt nauðsynlegt að stöðva vinnu kvenna um stund.

Konur eru um þriðjungur borgarstarfsmanna í Kabúl, eða um þúsund talsins. Noman segir þær flestar verða að halda sig heima, en konur sem vinna til að mynda við að þrífa kvennasalerni í borginni verða að halda áfram störfum, þar sem karlar mega ekki fara þangað inn.

Á valdatíð talibana á tíunda áratug síðustu aldar var konum bannað að mennta sig og vera á vinnumarkaðnum. Eftir valdatökuna í síðasta mánuði sögðust þeir ætla að virða kvenréttindi miðað við þau mörk sem þeim eru sett í íslömskum lögum. Þeir hafa beðið konur um að halda sig heima þar til öryggi verður meira í landinu. Þá hafa hermenn talibana barið niður mótmæli kvenna gegn stjórn þeirra, sem eingöngu er skipuð karlmönnum. 

Fámenn mótmæli kvenna voru haldin fyrir utan ráðuneyti kvennamála í dag. Annar hópur kvenna hélt blaðamannafund þar sem þær kröfðust réttinda. Fregnir hafa borist af því að kvennamálaráðuneytinu hafi verið lokað og nýtt ráðuneyti bókstafstrúarreglna verði opnað í staðinn. Ein mótmælenda við ráðuneytið sagði í dag að ef því yrði lokað væri verið að útiloka konur sem manneskjur.