Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kosningaloforðin - meira um útgjöld en tekjur

Mynd: RÚV / RÚV
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir flokkana lofa miklu meira útgjalda- en teknamegin og segir stjórnmálamenn þurfa að forgangsraða. Hann hefur áhyggjur af áhrifum vaxtahækkana á lán heimilanna. Drífa Snædal forseti ASÍ segir stjórnmálaflokkana þurfa að skýra hver eigi að borga fyrir samneysluna og hvernig þeir ætli að breyta henni.

Komandi kosningar og stjórnmálabaráttan voru meginmál Silfursins í dag þar sem forystufólk vinnumarkaðarins sat meðal annars fyrir svörum. Stefnumál stjórnmálaflokkanna geta sum kostað ríkissjóð skildinginn verði þeim komið í framkvæmd. 

„Ég held að það sé bara óumdeilt að það er verið að lofa miklu meira útgjaldamegin en teknamegin,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Halldór bendir á að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segi í nýjasta hefti Þjóðmála að ef ríkissjóður haldi áfram að eyða og atvinnulífið sé að sækja í sig veðrið sé Seðlabankanum nauðugur sá kostur að hækka vexti. 

„Og ég hef áhyggjur af því vegna þess að það hefur áhrif inn í heimilisbókhald allra landsmanna þar sem afborganir um hver mánaðamót af fasteignalánum sem eru stærstu útgjaldaliðir heimilanna myndu hækka samhliða,“ segir Halldór Benjamín. 

„Auðvitað er það grundvallarspurning í samfélaginu hvaða velferð viljum við halda uppi og hvernig eigum við að sækja peningana til að kosta þá velferð,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ, „megináherslur okkar þær að ef að við tryggjum aðgengi að húsnæði, aðgengi að heilbrigði, sæmilegu afkomuöryggi að þá njóti þess allir.“

Áherslur ASÍ fyrir þingkosningar heita "Það er nóg til" og sambandið vill réttláta stefnu ríkisfjármálum meðal annars öflugt eftirlit og nýtingu auðlinda í allra þágu. Finnst Drífu einhverjir stjórnmálaflokkar hafa farið offari í kosningloforðum? 

„Ég hef svo sem ekki viljað leggja mat á það hjá einstaka flokkum. Hins vegar er það alveg ljóst að flokkarnir þurfa að svara með miklu skýrari hætti hvernig þeir ætla að breyta samneyslunni, hver á að borga fyrir samneysluna og hvernig á að hlífa þeim sem helst skyldi hlífa,“ segir Drífa.

Það er ekkert sem stingur mikið í augun það sem þú hefur heyrt þegar vika er eftir?

„Það sem hefur verið mjög áberandi í þessari kosningabaráttu er að það eru mjög mörg framboð sem er gott en það hefur hins vegar verið svoldið á kostnað dýptarinnar finnst mér. Þannig að mörg mál hafa ekki komist á dagskrá þá nefni ég loftslagsmálin og jafnréttismálin til dæmis. Og það hefur skort einhvers konar dýpt því að þú ert með tíu ellefu flokka í panel þá verður ekkert rosalega hérna þá verður ekkert rosalega mikið svigrúm að fara á dýptina,“

Halldór Benjamín segir stjórnmálamenn standi frammi fyrir því að þurfa að forgangsraða: 

„Það er engin spurning að næsta kjörtímabil verður kjörtímabil forgangsröðunar og við sjáum það að það var vissulega búið að búa vel í haginn fyrir covid en skuldahlutfall ríkissjóðs sem var komið niður í 27% af landsframleiðslu mun hækka núna á næstu árum upp í tæplega 50% og það auðvitað gengur ekki til lengdar sem krefst þess að stjórnmálamenn fari í það erfiða verkefni að forgangsraða,“ segir Halldór Benjamín.