Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hagfræðingar telja framtíð bjarta fyrir stjórn Støres

Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, greiðir atkvæði í þingkosningunum 2013.
Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, greiðir atkvæði í þingkosningunum 2013. Mynd: EPA - NTB SCANPIX
Norskir hagfræðingar álíta framtíðina bjarta fyrir nýja ríkisstjórn Jónasar Gahr Støre formanns Verkamannaflokksins. Efnahagurinn sé á uppleið, bæði í Noregi og helstu viðskiptalöndum og kórónuveirusmitum sé jafnframt tekið að fækka.

NRK hefur eftir Erik Bruce aðalskipuleggjanda Nordea bankans að þótt samsetning stjórnarinnar liggi ekki enn fyrir hefji hún vegferð sína með byr í seglin.

Hann segir að reynsla annarra sýni að smámsaman dragi úr áhrifum Delta-afbrigðisins og það gerist einnig í Noregi. Það megi þakka háu hlutfalli bólusettra í landinu. 

Nejra Macic hagfræðingur tekur í sama streng og bendir á að efnahagur landsins sé nú á svipuðum slóðum og hann var fyrir faraldurinn. Allar spár bendi til aukins vaxtar.

Olav Chen hjá tryggingafyrirtækinu Storebrand segir bjartsýni ríkja, atvinnuleysi fari minnkandi og þannig verði það einfaldlega áfram. Það megi þakka viðbrögðum og aðgerðum fráfarandi ríkisstjórnar Ernu Solberg.

Chen bendir á að olíuverð sé hagstætt um þessar mundir sem skili verulegum skatttekjum og hann kveðst bjartsýnn á að þannig verði staðan áfram. Engin ástæða sé því til að draga úr útgjöldum þrátt fyrir kostnað vegna viðbragða við faraldrinum.

Hin hliðin á peningnum sé þó sú að raforkuverð og vextir hækki hratt sem hefur áhrif á afkomu fólks sem skuldar mikið. Macic tekur undir það en telur vexti þó ekki fara mikið yfir það sem þeir voru fyrir faraldurinn en Bruce kveðst óttast svolítið að vaxtahækkun verði neikvæð fyrir efnahagslíf landsins.

Hans mat er að Noregsbanki hækki vexti nægilega til að draga úr hættunni á þenslu í hagkerfinu