Femínisti áður en hún vissi að orðið væri til

Mynd: Chimamanda Ngozi Adichie / Chimamanda Ngozi Adichie

Femínisti áður en hún vissi að orðið væri til

19.09.2021 - 10:00

Höfundar

Nígeríski rithöfundurinn og stjörnufemínistinn Chimamanda Ngozi Adichie var gestur á bókmenntahátíð. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir baráttu sína en líka verið gagnrýnd fyrir ummæli sín á samfélagsmiðlum um trans konur.

Nígeríski rithöfundurinn og stjörnufemínistinn Chimamanda Ngozi Adichie var á meðal gesta á nýafstaðinni bókmenntahátíð. Hún er einn þekktasti rithöfundur heims um þessar mundir og líka ein mest áberandi talskona  kynjajafnréttis og annarra mannréttinda. Chimamanda fæddist í Nígeríu árið 1977 og ólst upp í háskólabænum Nsukka þar sem hún byrjaði kornung að lesa og dunda sér við að semja og skrifa sögur. Nítján ára gömul, eftir eitt ár í læknanámi, hélt hún til Bandaríkjanna þar sem hún lærði miðlun og stjórnmálafræði, síðar skapandi skrif og afrísk fræði. Hún hlaut mikið lof fyrir sína fyrstu skáldsögu sem kom út árið 2003, Purple Hibiscus eða Fjólublár læknakólfur. Það er þroskasaga nígerískrar unglingsstúlku, bók um ofbeldi innan heimilisins og pólitískan óróa í landinu.

Rasismi, ást og hármenning

Chimamanda sló svo í gegn árið 2006 með hinni epísku stríðssögu Half of a yellow sun, Hálf gul sól, sem kom út í íslenskri þýðingu tveimur árum seinna. Síðar hefur hún sent frá sér smásagnasafn, Það sem hangir um hálsinn - sem kom út í íslenskri þýðingu í nýverið, og aðra stóra epíska skáldsögu Amerikanaah sem fjallar um upplifun nígerískra innflytjenda í Bandaríkjunum og Bretlandi af samtímanum - bók sem snertir á málum eins og rasisma, ást og hármenningu svartra.

Oprah, Beyonce og Michelle Obama á meðal aðdáenda

Á meðan þessar stóru skáldsögur hafa tryggt henni aðdáendur í heimi bókmenntanna sem og á meðal áhrifavalda á borð við Oprah Winfrey og Michelle Obama, hafa það ekki síður verið fyrirlestrar hennar og ritgerðir sem hafa tryggt henni hylli fjöldans. TED-fyrirlestur hennar, hætturnar við eina sögu, dangers of a single story, er einn sá allra vinsælasti sem fluttur hefur verið, með tugi milljóna áhorfa á netinu. Þar fjallar hún um mikilvægi þess að heimurinn fái fjölbreyttar sögur af fólki - enda búi endurtekning sömu sögunnar, til dæmis um fólk frá Afríku, til steríótýpur og fordóma.

Annar TED fyrirlestur hennar, Við ættum öll að vera femínistar, var síðar gefinn út á bók og gerði hana að einni mest áberandi talskonu femínisma í dag. Ekki síst eftir að tónlistarkonan Beyonce notaði brot úr fyrirlestrinum í lagið sitt Flawless.

Lestur bókmennta aldrei mikilvægari

Kristján Guðjónsson hitti Chimamöndu í Háskólabíói fyrir hönd Lestarinnar, þar sem hún hélt erindi. Hann spurði hana út í stöðu bókmennta á tímum sítengingar og snjalltækja, nú þegar allir geta tíst, deilt, miðlað sínum eigin upplifunum og sögum á netinu. Hún kveðst eftir nokkra umhugsun líta svo á að bókmenntir séu í raun enn mikilvægari í dag en áður. „Við sem höfum um svo margt að velja verðum fyrir stöðugri truflun af hendi samfélagsmiðlanna. Ég held að þetta geri lestur, og þá á ég við lestur bókmennta, þeim mun mikilvægari,“ segir hún. Í bókmenntum megi finna samkennd og tilfinningar, þær gefi lesanda tækifæri til að skilja drifkrafta mannssálarinnar og ákvarðanirnar sem við tökum. „Þannig held ég að þær hjálpi okkur að eiga í betri samskiptum við hvert annað, hluti sem ómögulegt að er fá á Twitter.“

Svart fólk sýnt sem óæðra til að réttlæta þrælahald

Sögur hennar byggja að mestu á veruleika sem hún þekkir eða hefur tengingar við, hvort sem það er Bíafra-stríðið sem foreldrar hennar upplifðu og sögðu henni frá, eða reynsla þess sem er afrískur innflytjandi í Bandaríkjunum. Þó eru ekki allar aðalpersónurnar nígerískar konur af stétt menntamanna eins og hún sjálf. Aðalpersónur hálfgulrar sólar eru meðal annars drengur úr neðri lögum nígerísks samfélags og hvítur breskur karlmaður. Undanfarið hefur umræðan um hver má segja hvaða sögu verið áberandi og hvort persónuleg upplifun á reynsluheimi tiltekins hóps sé forsenda fyrir því að manneskja megi skrifa frá sjónarhorni hans. Adichie segir það vera áhugavert samtal og mikilvægt. „Samhengið sem það sprettur úr er sú staðreynd að sagnagerð á sér ekki stað í tómarúmi, sögur eru alltaf sagðar í tilteknu valdasamhengi,“ segir hún. „Ég get helst talað um Afríku en sögulega hefur það verið þannig víða að sögurnar voru ekki sagðar af heimamönnunum sjálfum heldur af útlendingum, Vesturlandabúum, og oft voru þær ekki sagðar með sannleikann að leiðarljósi heldur með tiltekið markmið í huga. Þær sýndu svart svart fólk sem óæðra á einhvern hátt og voru þannig notaðar til að réttlæta þrælahald. Þess vegna var gott kristið fólk í vestrinu sem fannst þrælahald bara vera í fínu lagi. Þetta er máttur frásagnarinnar.“

Gerlegt fyrir hvítan karlmann að skrifa vel frá sjónarhorni svartrar konu

Nú á dögum eru margir með efasemdir um réttmæti þess að hvítur maður skrifi frá sjónarhorni svartrar konu og Adichie segir að sú krafa spretti frá ljótu sögulegu samhengi. Sjálf segist hún líta á sjálfa sig sem sögusmið sem ber virðingu fyrir sköpunargáfunni. „Ég get engan veginn gengist við því að höfundur megi bara skrifa um þann þjóðfélagshóp sem hann tilheyrir, þessu trúi ég ekki. Ég tel að við getum skrifað sögur um hvað sem er en maður verður að gera það vel.“ Adichie segir að það sé gerlegt fyrir hvítan karlmann að skrifa vel frá sjónarhorni svartrar konu, „en það mun krefjast mun meiri vinnu því sjónarhorn hans er svo ólíkt svörtu konunnar.“

Karlar gjarnir á að lesa bara bækur eftir karla

Nýlega kveðst hún hafa lesið rannsóknir sem sýni að konur lesi bækur jafnt eftir karl- og kvenhöfunda en karlar lesi nánast bara bækur eftir kynbræður sína. Sjálf les hún blöndu af körlum og konum en hefur orðið vör við að karlkyns vinir hennar lesi aðallega eftir karla. „Þetta þýðir að sögur karla hljóma kunnuglega fyrir flestar konur, en ekki öfugt. Karlar þekkja ekki jafn vel til sagna kvenna þannig að þegar karl ætlar að skrifa sögu konu krefst það þess vegna meiri vinnu af hans hendi, hann þarf að brúa þessa þekkingargjá,“ segir hún. „En það er mögulegt að gera þetta vel.“

Betra að fólk skapi lélega list en enga list

Það er skoðun Adichie að ekki beri að hefta sköpunarkraftinn með því að meina neinum að segja sögu fólks sem tilheyrir öðrum þjóðfélagshópi. „Ég vil frekar að fólk skapi lélega list en enga list, þá getum við allavega átt þetta samtal. Horft á afurðirnar og spurt okkur af hverju þær eru lélegar,“ segir hún en bendir þó á að ekki beri að gera lítið úr röddum þeirra sem eru á öndverðum meiði. „Mér finnst sumir of einstrengingslegir í þessari umræðu þegar þeir vísa því bara á bug þegar fólk úr minnihlutahópum kvartar yfir að þeirra sögur séu teknar fyrir.“

Ekki bara konur að brenna brjóstahaldara

Það vakti athygli þegar tónlistarkonan Beyoncé fór að skilgreina sig opinberlega sem femínista og í lagi sínu Flawless frá 2013 notaði hún sem fyrr segir brot út TED fyrirlestri Chimamöndu, Við ættum öll að vera femínistar.

Eins og flestar poppsöngkonur sem eru settar fram sem ástarviðföng hafði hún komið fram fáklædd og æsandi - andstæðan við það sem margir tengdu við femínista. Í lagi sínu Flawless frá 2013 notaði tónlistarkonan brot úr TED fyrirlestri Chimamöndu, Við ættum öll að vera femínistar. Hún segir að viðfangsefnið hafi skipt sig máli alla ævi. „Ég var femínisti löngu áður en ég vissi að orðið væri til, ég bara vissi að það væru hlutir sem mér fannst ekki í lagi,“ segir Chimamanda. „Þegar ég tók svo þá ákvörðun að ræða þetta þá vissi ég að orðið væri mjög hlaðið neikvæðum stereótýpum. En við þurfum orð, orð til að fylkja okkur um, og til að byrja að finna út úr því hvernig við leysum vandamálið. Ég hefði getað notað orð eins og womanist, en ég hugsaði: Nei, við verðum að taka orðið til baka. Það er rökréttast að nota þetta orð, orðabókarskilgreiningin er manneskja sem trúir á jafnrétti karla og kvenna og það er það sem þetta snýst um.“

Hún segir að ímynd fólks af femínistum hafi líka breyst undanfarin ár, áður hafi því fylgt óljós hugrenningatengsl við „konur að brenna brjóstahaldara“. Nú til dags hafi ungt fólk hins vegar tekið það upp á sína arma með stolti. „Ég held að það sé oft mikilvægt að endurheimta hugtök á þennan hátt, neyða sjálfan sig til að skoða orðið, spyrja sig hvað það þýðir og taka af því allar þær stereótýpur sem hafa verið hengdar á það.“

Gagnrýnd fyrir orð sín um trans konur

Í baráttu sinni hefur Chimamanda þó sætt gagnrýni. Fyrr á þessu ári birti hún ritgerð á vefsíðu sinni þar sem hún fjallar um gagnrýni sem hún fékk á samfélagsmiðlum vegna orða sinna um trans konur. Hún hefur lagt áherslu á upplifanir ólíkra hópa en í viðtali sagðist hún telja reynslu kvenna af misrétti sem fæddar væru í kvenlíkama vera aðra en þeirra sem séu fæddar í öðrum líkama. Tveir fyrrum nemenda hennar, ungir nígerískir rithöfundar, gagnrýndu hana fyrir transfóbíu á samfélagsmiðlum. Í ritgerðinni rekur hún atburðarásina og fjallar um það sem hún kallar þrúgandi andrúmsloft sem henni finnst ríkja á samfélagsmiðlum á borð við Twitter þar sem henni finnst innihaldsrýr dyggðaflöggun, sjálfbirgingsháttur og múgæsingur ráða ríkjum. Hið minnsta feilspor í ítrekun hugmyndafræðilegra boðorða sé ástæða útskúfunar.

Myrkur innra með manneskjunni fær útrás á samfélagsmiðlum

Hún segir að þetta sé eitt dæmi sem sýni að vettvangur á borð við Facebook þrífist á átökum og að fólk rífist og taki þátt í samræðum óháð því hvort þær byggi á sannleikanum. „Ég held samt að það sé ekki vettvangurinn heldur hvernig við notum hann. Það er eitthvað myrkur innra með manneskjunni, innra með okkur öllum, og ég held að það verði áberandi í ákveðnum aðstæðum. Kannski er það nafnleysið og fjarlægðin. Þú horfir ekki í augun á andmælanda þínum og gleymir þess vegna mannúðinni.“

Stundum segist hún lesa um grimmúðlegt einelti á samfélagsmiðlum vegna minnsta, smávægilegasta hlutar sem sem einhver gerði eða sagði. „Þetta finnst mér hræðilegt. Það sem ég hef mestar áhyggjur af er hvaða áhrif þetta er byrjað að hafa á list og sköpun,“ segir hún. „Ég held að á næstu 20 árum munum við fá skáldsögur sem eru flatar, óinnblásnar, hugmyndafræðilega réttar og öruggar, en segja okkur ekki neitt um okkur sjálf, ekkert nýtt, því fólkið sem skapar þær er orðið svo mótað af samtalinu á samfélagsmiðlum. Það vill ekki lenda í því að vera útilokað, vill ekki að vinnustaðir foreldra eða fjölskyldu verði auglýstir á netinu eða þau verði áreitt og svo framvegis. Og það mun reyna að halda sér öruggu. Þetta finnst mér vera algjör synd.“

Kristján Guðjónsson ræddi við Chimamöndu Ngozi Adichie í Lestinni á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Elif Shafak hlýtur bókmenntaverðlaun Laxness