Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Caretta skjaldbökur klekjast út á Ítalíu í fyrsta sinn

19.09.2021 - 11:38
Mynd: EPA / EPA
Níu skjaldbökur af ættkvísl stórvaxinna skjaldbakna í Atlantshafi klöktust í vikunni úr eggjum á Jesolo strönd í Veneto héraði á Norðaustur-Ítalíu. Ekki er vitað til þess að skjaldbaka af þessari tegund, sem er í útrýmingarhættu, hafi klakist út svo norðarlega í Adríahafi. Hærra hitastig sjávar kann að hafa haft áhrif.

Ferðamaður í sólbaði á ströndinni tók fyrstur eftir kvendýri þar 9. júlí. Þar var dýrið að gera klárt fyrir eggin sín sem urðu alls 82. Því er ljóst að ungarnir verði fleiri.   

Skjaldbökurnar, klöktust úr eggi aðfaranótt fimmtudags, og voru ekki nema tæpir fimm sentímetrar á lengd. Þær tóku strax til fótanna og skriðu sem leið lá í átt til sjávar. 

Vísindamenn við Padua University, líffræðingar ARPAV (Veneto Regional Agency for Animal Prevention and Protection) og fleiri sjálfboðaliðar fylgdust hugfangnir með eftir að hafa vaktað eggin undanfarna 68 daga á undan. Vöktunin heldur reyndar áfram þar til öll eggin hafa klakist út. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV