Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Björgunarsveitir hjálpuðu strönduðum sæförum við Akurey

19.09.2021 - 23:35
Björgunarskipið Kobbi Láka
Mynd úr safni Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar til bjargar fjórum mönnum í strönduðum gúmmíbát á skeri við Akurey í Kollafirði. Vel gekk að bjarga mönnunum en á sama tíma barst hjálparbeiðni frá göngumanni í Esjunni.

Tilkynningin um strandið barst rétt fyrir klukkan tíu í kvöld. Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar upplýsingafulltrúa Landsbjargar voru þrjár sveitir kallaðar út á bátum og sæþotum til bjargar mönnunum.

Rétt fyrir klukkan ellefu tókst að draga bátinn út og koma mönnunum í land. Þar hlúðu sjúkraflutningamenn að þeim. Ekki er talið að þeir séu slasaðir en Davíð segir þá hafa verið blauta, kalda og hrakta eftir volkið. 

Mennirnir voru fluttir á bráðamóttöku með sjúkrabílum að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar. 

Skammt var stórra högga á milli hjá björgunarsveitunum í kvöld því að á meðan á björgunaraðgerðum við Akurey stóð barst hjálparbeiðni frá göngumanni sem staddur var í Gunnlaugsskarði í Esju.

Hann komst ekki af sjálfsdáðum niður vegna illviðris, slæms skyggnis og þoku í fjallinu. Davíð segir manninn hafa gert það eina rétta í stöðunni sem var að tilkynna um hremmingar sínar. Hann fannst rúmum tveimur og hálfri klukkustund eftir að hjálparbeiðnin barst og var komið til byggða.

Nokkrar annir voru hjá björgunarsveitum Landsbjargar í gær við björgun fastra bíla að sögn Davíðs auk þess sem aðstoða þurfti áhöfn báts sem var vélarvana í Faxaflóa rétt fyrir utan við Reykjavík. 

Fréttin var uppfærð 20. september klukkan 5:25.

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV