Biden og Macron ræða saman á næstu dögum

epa09262397 France's President Emmanuel Macron, US President Joe Biden (L) and European Commission President Ursula von der Leyen during the G7 Summit in Carbis Bay, Britain, 11 June 2021. Britain will held the G7 summit in Cornwall in from 11 to 13 June 2021.  EPA-EFE/NEIL HALL/INTERNATIONAL POOL / POOL
 Mynd: EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron forseti Frakklands ræða á næstu dögum ágreining ríkjanna vegna riftunar Ástrala á samningi um kafbátakaup.

Samræðurnar eru að beiðni Bidens staðfestir Gabriel Attal talsmaður frönsku ríkisstjórnarinnar sem segir Bandaríkjamenn þurfa að útskýra það sem lítur út sem meiriháttar umboðssvik. 

Frakkar kölluðu sendiherra sína heim frá Washington og Canberra í vikunni vegna málsins.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu mótmælti ásökunum Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands um lygar og undferli. Frökkum hafi verið fullkunnugt löngu áður en samningnum var rift að kafbátarnir sem pantaðir voru þættu ekki lengur uppfylla kröfur.

Ástralski varnarmálaráðherrann Peter Dutton kvaðst hafa sagt Florence Parly, frönskum kollega sínum að samningurinn þætti of kostnaðarsamur og langt á eftir áætlun. 

Hætt hefur verið við fund varnarmálaráðherra Frakklands og Bretlands sem til stóð að halda í vikunni. Starfsmaður franska varnarmálaráðuneytisins staðfesti þetta við AFP fréttastofuna í kvöld.

Talsmenn breska varnarmálaráðuneytisins vildu hvorki staðfesta né neita því að fundinum hafi verið aflýst. 

Ástralar, Bretar og Bandaríkjamenn kynntu í liðinni viku samkomulag um aukið hernaðarsamstarf á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Samkomulagið sem gengur undir heitinu Aukus beinist meðal gegn auknum umsvifum Kínverja á svæðinu.