Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

72 þúsund kr. meira í ráðstöfunartekjur á mánuði

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Viðreisn áætlar að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 72 þúsund krónur á mánuði á komandi kjörtímabili með því að tengja krónuna við evru. Aðgerðin stuðli að hagvexti á sama tíma og hún auki stöðugleika ríkissjóðs. Viðreisn kynnti áherslur sínar og stefnumál á fundi í dag.

 

Viðreisn telur að vextir, vöruverð og þjónustukostnaður muni lækka með því að tengja krónuna við evru. Breytingin myndi skila vísitölufjölskyldunni 900 þúsund krónum á ári ef miðað er við að hún skuldi 31 milljón í húsnæðislán.

Daði Már Kristófersson, skipar annað sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

„Óstöðugleikinn í krónunni veldur því að hér er dýrara að taka lán heldur en í nágrannalöndunum. Hér er líka meiri verðbólga en í nágrannalöndunum. Allt þetta hækkar lántökukostnað heimilanna. Þau lönd sem hafa farið þessa leið, og þau eru allmörg núna á undanförnum árum innan Evrópu, hafa öll upplifað að vaxtamunurinn minnkar. Þetta þýðir í kerfi þar sem að fólk á húsin sín og er með skuldir bara verulega háar fjárhæðir.“

Viðreisn áætlar að tekjur ríkissjóðs muni aukast um 125 milljarða vegna lægri vaxtakostnaðar ríkisins, aukins hagvaxtar og markaðsleiðar í sjávarútvegi. Flokkurinn vill auka útgjöld til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála um samtals 90 milljarða. Lykilatriði sé að auka ekki skuldir ríkissjóðs.

„Það að halda því fram að það sé eitthvað skilyrði fyrir hagvexti að vera með krónu af hverju hafa þá ekki öll önnur ríki heimsins tekið upp krónu?“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV