Skíðasvæði gert að bæta lyftukort vegna COVID-19

18.09.2021 - 11:14
Mynd með færslu
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint Mynd:
Kærunefnd vöru og þjónustukaupa hefur gert skíðasvæði að bæta fjölskyldu þrjú lyftukort eftir að skíðasvæðinu var lokað vegna kórónuveirufaraldursins síðasta vor. Fjölskyldan gat ekki notað lyftukortin stóran hluta skíðavertíðarinnar og þá var skíðasvæðið lokað á háönn þegar fjölskyldur standa helst á skíðum saman. Taldi fjölskyldan því að hún ætti að fá nýta sér tvo mánuði á næsta skíðatímabili án kostnaðar.

Öllum skíðalyftum og brekkum var lokað þann 20. mars í fyrra þegar fyrsta bylgja kórónuveirufaraldursins var að fara af stað. „Þetta er áfall jafnt fyrir okkur sem rekum skíðasvæðin sem og viðskiptavini okkar en við vonumst til að allir sýni þessu skilning og þolinmæði,“ sagði í tilkynningu frá Samtökum skíðasvæða.

Skíðasvæðið benti á í bréfi sínu til kærunefndarinnar að farsóttin væri svokallað „force majeure“ eða óviðráðanlegur atburður sem var ófyrirsjáanlegur þegar fjölskyldan keypti lyftukortin.

Þegar ríkisstjórnin tilkynnti um algjört samkomubann í mars á síðasta ári hafi verið  ómögulegt að hafa skíðasvæðið opið.

Fjölskyldan benti á að skíðasvæðið hefði verið lokað á stærsta tímabili vertíðarinnar og það væri óeðlilegt að neytenda yrði gert að bera tekjufall við slíkar aðstæður. Fjölskyldan hafi ekki fengið neitt í staðinn fyrir keypta þjónustu sem tekin var af henni  fyrirvaralaust og engin lausn verið boðin í staðinn.

Í flestum sambærilegum rekstri hafi verið reynt að koma til móts við neytendur vegna COVID-19. Fyrirtæki hafi boðið upp á afslátt, endurgreiðslu eða gert breytingar á gildistíma.

Kærunefndin bendir á að þótt ákveðnar aðstæður geti losað fyrirtæki undan skyldu sinni til að efna samning verði einnig að líta til þess að þau geti þurft  að efna hann þegar hindranir eru ekki lengur til staðar.

Hún telur því að ekki verði séð að útbreiðsla COVID-19 réttlæti ógildingu lyftukortanna.  Og var því fallist á það með fjölskyldunni að hún fengi lyftukort í þann tíma sem skíðasvæðinu var lokað eða frá 20. mars á næsta ári til 1. maí.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV