Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nýliðarnir skelltu Úlfunum

Mynd með færslu
 Mynd: Brentford FC - Twitter

Nýliðarnir skelltu Úlfunum

18.09.2021 - 13:23
Fyrstu leikur dagsins í ensku úrvalsdeildinni var viðureign Úlfanna og nýliða Brentford. Gestirnir voru mun hættulegri og skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik. Brentford missti mann af velli með rautt spjald í seinni hálfleik en heimamenn náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og Brentford vann því leikinn 2-0.

Það tók gestina aðeins níu mínútur að koma boltanum í netið en markið var réttilega dæmt af þar sem Bryan Mbuemo var kolrangstæður í aðdraganda marksins. Á 26. mínútu dró til tíðinda þegar Brentford fékk víti. Marcal togaði þá Ivan Toney niður í teignum eftir hornspyrnu. Leikmenn Úlfanna mótmæltu dómnum af krafti en uppskáru ekkert nema gult spjald á Jose Sa fyrir mótmæli. Toney fór sjálfur á punktinn og skoraði örugglega framhjá Jose Sa í markinu. 

Brentford kom boltanum aftur í netið á 29. mínútu en markið var dæmt af þegar myndbandsdómgæsla sýndi fram á að boltinn fór í höndina á Toney áður en skoraði. Á 34. mínútu komst Brentford svo í 2-0 með marki frá Mbuemo. Nýliðarnir því með sanngjarna tveggja marka forystu í hálfleik. 

Eftir rúmlega klukkutíma leik varð lið Brentford fyrir áfalli þegar Shandon Baptiste fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Sókn Úlfanna þyngdist talsvert eftir að Brentford missti mann af velli en þeim tókst þó ekki að skora og nýliðar Brentford unnu því leikinn nokkuð sanngjarnt.