Lygilegur eltingaleikur lögmanna við Andrés prins

18.09.2021 - 14:12
epa07087915 Britain's Princess Eugenie of York (L) arrives with her father, Prince Andrew, Duke of York for her royal wedding ceremony to Jack Brooksbank at St George's Chapel at Windsor Castle, in Windsor, Britain, 12 October 2018.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA
Lögmenn Virginiu Giuffre, sem hefur stefnt Andrési prins fyrir að beita hana kynferðislegu ofbeldi, hafa lagt á sig mikla vinnu við að reyna birta prinsinum stefnuna. Hún hefur verið send í póst, með sendiboða og í tölvupósti. Þessi leit er orðin þungamiðjan í málinu því dómari í New York neitar að taka fyrir stefnuna fyrr en hann er fullviss um að staðið hafi verið að birtingu á löglegan hátt.

Til þess að stefna sé tæk fyrir dómi þarf að birta hana fyrir hinum stefnda á löglegan hátt.  Á Íslandi hafa stefnur verið birtar í Lögbirtingablaðinu þegar allar tilraunir til að finna viðkomandi hafa engan árangur borið.

Það flækir aðeins hlutina þegar þú ætlar að stefna breskum prins. Sérstaklega ef það tengist jafn eldfimu máli og sambandi hans við barnaníðinginn Jeffrey Epstein. Samband sem varð til þess að Andrési var eiginlega sagt upp störfum hjá bresku konungsfjölskyldunni.

Í umfjöllun BBC kemur fram að lögmenn Virginiu Giuffre hafi lagt á sig ómælda vinnu til að birta Andrési prins stefnuna. Fyrst fundu þeir alla lögmenn sem höfðu einhvern tímann aðstoðað prinsinn og sendu þeim stefnuna í tölvupósti. Málsskjölin voru einnig send með hraðpósti en engin viðbrögð fengust.

Fyrir dómi hafa lögmennirnir einnig lagt fram ljósmynd þar sem sést hvernig stefnan er póstlögð. Og þeim tókst að grafa upp tölvupóstfang á skrifstofu Andrésar og fengu þá loks svar: „Takk fyrir að hafa samband við skrifstofu hertogans af York. Þetta er sjálfvirkt svar um að við höfum fengið póstinn frá þér.“

Cesar Sepulveda, sem sérhæfir sig í rannsóknum á fyrirtækjum, var síðan sendur sérstaklega til Windsor með stefnuna.  Honum tókst ekki að hafa upp á neinum starfsmönnum Andrés en fékk loks þær upplýsingar að hann gæti skilið stefnuna eftir við hliðið. Þau yrðu síðan send til lögfræðiteymis Andrésar.

Á fundi sem haldin var í byrjun vikunnar með lögmönnum Giuffre og Lewis Kaplan, dómara í málinu,  mótmælti Andrew Brettler, lögmaður Andrésar í Bandaríkjunum, því að rétt hefði verið staðið að birtingu stefnunnar.

Kaplan minnti lögmanninn á Haag-samninginn þar sem kveðið er á um að dómstóll í Bandaríkjunum geti beðið dómstól í Bretlandi að hafa upp á fólki til að birta því stefnu.  

Og á miðvikudag barst dómara í Bretlandi slíkt erindi. Lögmenn Andrésar mótmæltu þessu og fengu frest fram á föstudag til að skila inn greinargerð. 

Í gær komst Kaplan, dómarinn í New York, síðan að þeirri niðurstöðu að birta mætti bandarískum lögmanni Andrésar stefnuna.

En þótt stefnan verði birt á löglegan hátt á dómarinn eftir að taka afstöðu til þess hvort málið sé tækt til efnismeðferðar. Þar kann samkomulag sem Guiffre gerði við Epstein árið 2009 að leika stórt hlutverk.  Giuffre féllst á að fara ekki í mál við neinn sem tengdist Epstein gegn því að hann greiddi henni skaðabætur.