Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Í dag var hlaupið til góðs

Í dag átti Reykjavíkurmaraþonið að fara fram eftir að því var frestað frá 20. ágúst þegar upprunalega átti að hlaupa. Mörg góðgerðarfélög og smærri hópar og einstaklingar nýttu daginn í daginn í dag til að láta gott af sér leiða.

Foreldrar kraftaverkadrengs hafa þegar safnað 3 milljónum til Barnaspítalans en faðirinn hljóp heilt maraþorn í morgun til að þakka fyrir lífgjöf sonar síns.  
Slökkviliðið dró einnig 14 tonna dælubíl  um Seltjarnarnes til styrktar Píeta samtökunum. 

„Eins og fólk veit þá erum við að stórum hluta til að vinna við sjúkraflutninga og þar erum við að koma að þessum málum, hvort sem það er fólk í sjálfsskaðahugleiðingum, eða hreinlega búið að fremja sjálfsmorð og það eru mjög erfið útköll  og við sjáum alveg fulla ástæðu til að safna fyrir Píeta samtökin svo þau geti haldið sínu frábæra starfi áfram,“ segir Sverrir Árnason slökkviliðs og sjúkraflutningamaður.

„Við erum öll með okkar sögu af því að hafa komið að sjálfsvígi. Þetta eru erfiðustu útköllin sem þú gleymir aldrei og þau eru með okkur alla tíð. Það er fullt af fólki úti í samfélaginu sem er að draga sinn dælubíl líka á eftir sér, hvort sem það eru gerðraskanir, fíknivandi, áföll eða eitthvað annað. Svo þetta hefur svona myndræna skírskotun líka.“

Árið 2019 var sett áheitamet í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem hlauparar söfnuðu 167 milljónum til góðgerðarfélaganna. Í fyrra þegar hlaupinu var aflýst vegna Covid-19 þá tókst að safna rúmum 70 milljónum.

Í ár hefur ríflega 40 milljónum verið safnað en söfnuninni lýkur á mánudag. Efstur í söfnuninni er Fannar Guðmundsson sem lauk heilmaraþoni í dag, hann hefur þegar safnað um 3 milljónum fyrir Barnaspítala Hringsins.

Hann er faðir Theodórs Mána sem fagnaði eins árs afmæli sínu í dag en hann hefur átt við erfið veikindi að stríða frá fæðingu. Anna Gréta Oddsdóttir er móðir Theódórs Mána. 

„Það var talið að hann myndi bara lifa í vikur eða mánuð. En með frábærri aðstoð frá Barnaspítalanum þá er hann orðinn eins árs og allur sá tími hefur verið svo mikil gleði og það er vegna þess hvað við höfum fengið mikla aðstoð frá Barnaspítalanum og frá öllum sem þar vinna og þá höfum við geta notið þessa tíma skapað minningar sem munu alltaf vera með okkur og þess vegna vildum við safna fyrir hann og það gekk bara svona vonum framar.“

Fannar þakkar öllum fyrir stuðninginn. 

„Bara takk fyrir stuðninginn. Allir. Það er bara.....sjáðu allt þetta fólk hérna. Þetta er bara lygilegt. En ég er ekki alveg skýr í hausnum ennþá eftir þetta. Ég er bara hálf ringlaður. Hvað hugsaðir þú á leiðinni? Ég var bara að hugsa um að knúsa hann þegar að ég kæmi í mark. Það er bara það eina sem ég var að spá. Hlaupa til hans það er það sem ég var að hugsa. Bara alveg búinn,“ segir Fannar Guðmundsson og hlær.