Abdelaziz Bouteflika, fyrrverandi forseti Norður-Afríkuríkisins Alsír er látinn 84 ára að aldri eftir langvinn veikindi.
Hann réði ríkjum í Alsír um nærri tveggja áratuga skeið en mikil mótmæli brutust út þegar hann hugðist bjóða sig fram fimmta sinni árið 2019.
Bouteflika lék stórt hlutverk í sjálfstæðisstríði Alsíringa gegn Frökkum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en varð ekki forseti fyrr en árið 1999. Þá hafði blóðugt borgarastríð kostað um tvö hundruð þúsund mannslíf í landinu.
Forsetinn fyrrverandi hvarf nánast almenningssjónum árið 2013 eftir að heilablóðfall gerði honum erfitt um mál og hreyfingu.