Askja með svakalegan sprungusveim og tíð gos

18.09.2021 - 07:14
Hamfarir · Innlent · Náttúra · Askja · Austurland · eldgos · Norðurland · Spegillinn
Mynd: Sturla Holm Skúlason / RÚV
Kvikuþróin undir Öskju virðist vera grunnstæð, á tveggja til þriggja kílómetra dýpi. Eldstöðin gýs tvisvar til þrisvar á öld, oftast hraungosum, en hún á það til að senda frá sér feikna öskugos, síðast fyrir tæpum 150 árum.

„Ja, góðir hlustendur, þið skuluð ekki vænta þess að fá neina frásögn í nokkru almennilegu samhengi núna. Ég er hér rifinn upp úr svefnpoka syfjaður snemma morguns, nokkuð vansvefta. Hef satt að segja þessa viðburðaríku daga ekki haft tíma til að skrá neitt verulega niður eða skapa mér sæmilega heildarmynd af þessu gosi,“ sagði Sigurður Þórarinsson náttúrufræðingur í viðtali við Emil Björnsson fréttamann við Öskju í Dyngjufjöllum 29. október 1961. Þremur dögum fyrr, 26. október, hafði eldgos hafist í Öskju. 

„Eins og hlustendum er löngu kunnugt af fréttum þá byrjuðu umbrotin í Öskju með því að þar mynduðust goshverir, leirhverir á norð-suðlægri sprungu og leyfði ég mér þegar við þá fyrstu frétt að segja að þarna myndi koma upp hraunspýja. Segja má að það hafi ræst og það fyrr en ég bjóst við og sú hraunspýja sé þegar orðin stærri en að því leyti er þetta hraunspýja réttnefni, að þetta hraun kom að verulegu leyti á mjög stuttum tíma. 
Þessir hverir voru eins og kunnugt er að smá breytast og færast í aukana. Sumir voru að hverfa, aðrir nýir og stærri voru að koma.“ 

Mynd: NASA - The Exploration Museum, H / Wikimedia Commons
Hér má hlýða á viðtalið við Sigurð Þórarinsson frá 1961 í heild.

„Ætla má að hraungosið, aðalgosið sem nú stendur yfir, hafi byrjað í kringum hádegi á fimmtudag því það var um tveim tímum eftir hádegi sem vart varð við gufubólstra upp úr Öskju og mér þykir ólíklegt að það hafi verið byrjað mörgum tímum áður. Síðar um daginn verður svo amerísk flugvél vör við mikið hraunflóð, þó að frásögnin af því hafi í raun verið mjög ýkt þá er ekki efi á því að þá er hraungos byrjað. Um kvöldið er þetta orðið gríðarlega mikið hraunrennsli og hefur haldið áfram síðan þótt hafi farið rénandi,“ sagði Sigurður Þórarinsson í októbermánuði 1961. 

En í septembermánuði 2021 hittir Spegilllinn Kristínu Jónsdóttur jarðeðlisfræðing framan við Veðurstofuna, þar sem fylgst er með hræringunum í Dyngjufjöllum með rauntímamælingum á jarðskjálftum, og þenslu á gps-mælum, sem var það sem kom jarðvísindamönnum á sporið með landrisið nú. InSAR-tækni  var svo notuð til að kanna þensluna betur. Landrisið á einum og hálfum mánuði virðist vera nærri 10 sentimetrar.

Miklar fréttir að land sé tekið að rísa við Öskju

„Auðvitað er þetta stórmerkilegt af því að það hefur verið mjög vel fylgst með Öskju. Askja er ein af þessum öflugu eldstöðvum á Íslandi. Hún er stór og með svakalegan sprungusveim og tíð gos. Frá 1970 er farið að fylgjast með sigi sem er í gangi þar og Freysteinn Sigmundsson og Erik Sturkell taka við þessum mælingum og sig hefur síðustu áratugi verið að mælast svona um það bil fimm sentimetrar á ári. Svo verður þessi svakalegi viðsnúningur síðsumars, í byrjun ágúst, þá bara fer land að rísa þannig að þetta eru náttúrulega miklar fréttir,“ segir Kristín Jónsdóttir.

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Kristín Jónsdóttir jarðeðlisfræðingur minnir á að hraungos séu algengust í Öskju, en þar geti líka orðið svakaleg öskugos.

Kvikuhólfið, það er ekkert langt niður í það?

„Það er talið vera á tveggja-þriggja kílómetra metra dýpi og með því að bæði nota þessi gps-gögn og svo þessi INSAR-gögn er hægt að búa til líkön og sjá hversu vel það passar við, þannig að þetta dýpi virðist sennilegt á þessari þenslumiðju,“ svarar Kristín.

Hefur það einhverja þýðingu, gerast hlutirnir hratt eða hægt eða er ekkert hægt að svara því?

„Jú, það hefur þýðingu, þeim mun grynnri kvikusöfnun, þeim mun hættulegri í rauninni. Bárðarbungukvikuhólfið er talið vera á 8-10 kílómetra dýpi. Við sjáum hvernig það þandist út þar til sú kvika fór á stjá og nú erum við miklu, miklu ofar. Og þá er spurning, hvenær er þrýstingur orðinn nægilegur til að kvikan verði óróleg og vill fara eitthvað annað. Og er þá þægilegra fyrir hana að fara eftir sprungusveimnum til norð-austurs eða suð-vesturs eða er hreinlega auðveldasta leiðin að koma beint upp?“ veltir hún fyrir sér. 

Núna í október eru 60 ár frá síðasta gosi í Öskju, það var hraungos og er talið að það hafi staðið fram í desember. Á árunum 1921-1930 urðu nokkur smágos niðri við Öskjuvatn en árið 1875 varð afdrifaríkt sprengigos. Upphafi þess er lýst svo í tímaritinu Andvara frá 1882: 

Rúmri viku fyrir jól fór að bera á jarðskjálftum í Mývatnssveit, og fóru þeir smávaxandi. Ekki voru kippirnir langir og harðir, en svo tíðir að ekki varð tölu á komið, brakaði mikið í húsum í stærstu kippunum, og allt hringlaði sem laust var; 2. janúar bar mest á þessu, þá var jarðskjálfti allan daginn. Jarðskjálftar þessir fundust mest upp til dala og fjalla, t.d. á Möðrudal á fjöllum, en minna í útsveitum. 3. janúar byrjuðu Dyngjufjöll að gjósa, og síðan kom upp eldur í Sveinagjaá á Mývatnsöræfum

Gjóska lagðist yfir sveitir austanlands, svo heiðarbýli og jarðir í uppsveitum lögðust í eyði. Gosið átti sinn þátt í að fjölmargir fluttu til Vesturheims. Eftir að gosinu lauk seig land mikið og þar er nú hið ægifagra Öskjuvatn.

Myndir úr Sumarlandanum 2021 https://www.ruv.is/frett/2021/07/21/fa-aldrei-nog-af-obyggdunum
 Mynd: Sturla Holm Skúlason - RÚV

Hraungos eru algengust í Öskju, gos líkt og í Fagradalsfjalli og Holuhrauni. 

„Það verða líka sprengigos í Öskju, þau eru sjaldgæfari en geta verið svakaleg,“ minnir Kristín á. „Og 1875-gosið var auðvitað gríðarmikið gos og hafði mikil áhrif á Íslendinga. Ég heyrði að 38 tímum eftir að gosið hófst þá var aska farin að falla í Stokkhólmi og þar voru gerðar efnagreiningar á öskunni.“

Hvað er það sem stýrir því hvort gerist?

„Já, það er auðvitað efnasamsetning kvikunnar sem að skiptir máli og þó að við getum séð að þarna sé kvika að þenjast út getum við ekki vitað hver efnasamsetning hennar er fyrr en hún kemur upp. Það geta líka orðið sprengingar hreinlega vegna þess það er grunnvatn sem kemst að basískri kviku, þannig að það geta orðið gufusprengingar. En gosið 1875 var sprengigos vegna þess að kvikan var súr og kísilsýrurík.“

Kristín minnir á að þó að kvika sé að þrýsta sér upp sé langalgengast að kvikuinnskot komist ekki upp á yfirborð og verði að eldgosi. En miðað við gossögu Öskju væri ekkert óvenjulegt að hún léti á sér kræla.

„Þetta eru svona tvö-þrjú gos á öld að meðaltali og það sem við sjáum líka þegar gossagan er skoðuð að oft þegar hún fer í gang þá er hún með ítrekuð gos í einhvern tíma. Það kannski koma 8-10 ár þar sem það verða gos við og við og það er náttúrulega eitthvað sem gæti gerst.“ 

Það gerðist til að mynda á fyrri hluta 20. aldar, þegar gaus sex sinnum niðri við Öskjuvatn á árunum 1922 til 1929.

Gígarnir sem gaus úr í hraungosinu fyrir 60 árum kallast Vikraborgir. Þar við eru nú bílastæði þaðan sem Öskjufarar ganga til að komast að Öskjuvatni og Víti. Hraunið úr Vikraborgum, Vikrahraun, rann niður fjallið gegnum hið svokallaða Öskjuop og staðnæmdist austan við Drekagil, þar skammt frá voru síðar reistir skálar Ferðafélags Akureyrar. Förum nú aftur um 60 ár og gefum Sigurði Þórarinssyni orðið: 

„Eins og ég nefndi þá var þetta hraungos og fylgdi því mjög lítið öskufall, það er nokkuð vikurfall inni í Öskju sem barst suður fyrsta daginn, þykkt lag af vikri, dökkum frauðkenndum vikri inni í Víti, svart yfir að sjá og rastir á Öskjuvatni en þetta mun hvergi hafa borist til byggða og er mjög óverulegt miðað við sprengigos.“ 

Sigurður Þórarinsson náttúrufræðingur í rannsóknarleiðangri við Vatnajökul.
 Mynd: RÚV
Sigurður Þórarinsson náttúrufræðingur í hálendisleiðangri.

„Það myndaðist gossprunga sem liggur ekki eins og við bjuggumst við í byrjun og töldum þegar við flugum um nóttina, það var skýjað og varla hægt að átta sig á fjöllum, töldum að hún væri frá norðri til suðurs eins og yfirleitt er hér á Norðurlandi, hún liggur hornrétt á þá sprungu eða svo að segja, út í Öskju, raunar eins og þær mörgu sprungur sem myndast höfðu og við sáum þegar við skoðuðum hverastöðvarnar þarna í fyrsta sinni. Það er raunar næsta algengt að það myndist sprungur hornrétt á aðalsprungur,“ sagði Sigurður. 

„Þetta skipti hefur gosið, það sem af er, komið upp úr sprungu sem er svona 700-1000 metra löng og á henni eru þessir gígar, þeir stærstu austast og voru upprunalega einn stór gígur eða sprunga sem gaus upp úr, hraunbuna svokölluð, það sem kallað er á vísindamáli lava fountains, þetta sprautast upp eiginlega [...],“ segir hann og heldur lýsingu sinni áfram. „Hraunið er lapþunnt en ekki einstaka glóandi sýjur sem þeytast upp, þó að það sé nú að byrja að færast í það horf í gígunum. Hvað þessar hraunbunur voru háar, það er ekki erfitt að segja um. Við sáum það fyrstu nóttina að þær hafi verið svona 500 til 700 metra háar, þegar við komum að þessu sólarhring síðar þá hafa þær verið kannski 300-350 metra háar, stundum upp undir 400 og í gær þá hafa þetta verið 200-250 metra háar hraunbunur, þetta gefur svona lauslega hugmynd um gang gossins hingað til,“ sagði Sigurður Þórarinsson náttúrufræðingur í viðtali við Emil Björnsson fréttamann við Öskju á upphafsdögum gossins 1961.