Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þrjú smit greind á Reyðarfirði eftir sýnatökur í gær

17.09.2021 - 10:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrjú smit hafa greinst á Reyðarfirði eftir umfangsmikla skimun í gær, en greiningu sýna er ekki lokið. Í gær var greint frá því að tíu smit hefðu greinst sem væru rakin til Grunnskólans á Reyðarfirði og leikskólans Lyngholts og nú eru alls nítján staðfest smit í bænum. Skólarnir voru báðir lokaðir í gær, og áfram í dag, en fyrirfram hafði verið fyrirhugaður starfsdagur í skólunum í dag.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir að sýnataka fari aftur fram á Reyðarfirði í hádeginu í dag. Enn sé verið að greina þau 250 sýni sem tekin voru í gær og að ákvörðun verði tekin um næstu skref eftir að niðurstöður liggi fyrir úr skimun dagsins í dag. Meðal þeirra sem voru skimuð í gær voru 83 leikskólabörn og þrjátíu starfsmenn leikskólans Lyngholts. Þá voru foreldrar og aðrir aðstandendur nemenda í leikskólanum og grunnskólanum hvattir til að mæta í skimun.