
Hunsar allar ásakanir um aðild að forsetamorði
Henry segir ásakanirnar vera hávaða skapaðan í pólítískum tilgangi. Moise forseti tilnefndi Henry sem forsætisráðherra tveimur dögum fyrir morðið. Á fimmta tug hefur verið handtekinn en ekki er enn vitað hver stóð að baki morðinu.
Síðastliðinn þriðjudag fóru starfsmenn ríkissaksóknara fram á það við dómara málsins að Henry yrði ákærður. Það er vegna tveggja símtala hans við einn hinna grunuðu, Joseph Felix Badio opinberan embættismann, nokkrum stundum fyrir morðið.
Rakning leiddi í ljós að Badio var nærri forsetabústaðnum þegar Henry hringdi í hann snemma morguns 7. júlí. Forsætisráðherrann segir enga leið fyrir sig að muna hverja hann hefur talað við í síma eða um hvað.
Símtöl við grunaða menn dugi ekki til að varpa grun á nokkurn mann. Hann vék saksóknara úr embætti skömmu eftir að ákærubeiðnin var lögð fram og rak dómsmálaráðherra landsins á miðvikudaginn.