Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hlutabréfaverð hvergi hækkað jafn mikið og hérlendis

17.09.2021 - 19:54
Mynd: RÚV / RÚV
Hvergi hefur hlutabréfaverð hækkað jafn mikið og hérlendis undanfarna tólf mánuði. Hagfræðingur segir að ekki megi gera ráð fyrir álíka hækkunum á næstu árum.

Verðhækkanir hafa verið gríðarlegar á hlutabréfamarkaði undanfarin misseri og viðskipti aukist mikið. Í lok ágúst var tólf mánaða verðhækkun á hlutabréfamarkaðnum hér á landi 65,4 prósent og var hvergi meiri á þessu tímabili. Til samanburðar var hækkunin 41,7 prósent í Svíþjóð, þar sem verðið hækkaði næstmest, um 29,2 prósent í Bandaríkjunum og 23 prósent í Bretlandi. 

„Það hefur náttúrulega alltaf svolítið átt við um markaðinn á íslenskum hlutabréfamarkaði, rétt eins og hlutabréfamarkaði margra nýmarkaðsríkja, að það verða oft svolítið meiri sveiflur hérna heldur en víða annars staðar á mörkuðum sem byggja á eldri grunni og eru stærri,“ segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum.

Gústaf segir að lækkun vaxta, hækkun frítekjumarks fjármagnstekna og aukinn sparnaður heimilanna hafi einnig talsverð áhrif.

Eimskipafélagið hefur rúmlega þrefaldast í virði frá því um miðjan september í fyrra. Kvika banki hefur hækkað um rúmlega 126 prósent, Arion banki um tæplega 121 prósent og þá hafa Origo og Iceland Seafood rúmlega tvöfaldast í virði. 

Er þetta heilbrigður markaður?
„Þetta hafa náttúrulega verið mjög miklar hækkanir. Verðið núna er um 80 prósent hærra en það var 2019, það er að segja fyrir faraldurinn hér á landi, og það eru ekki sjálfbærar hækkanir til lengri tíma litið. Það má ekki búast við því að við sjáum áfram svona miklar hækkanir á næstu árum,“ segir Gústaf.

Hann segir erfitt að segja til um hvort búast megi við einhvers konar leiðréttingu á næstu mánuðum. „Ef að markaðurinn til dæmis í Bandaríkjunum myndi gefa eitthvað eftir eins og sumir vilja meina að muni gerast þá gæti það smitast hingað til lands og við getum fengið að sjá einhvers konar leiðréttingu en hversu mikil hún verður er erfitt að segja,“ segir Gústaf.