Guardiola og formaður aðdáenda Man City í hár saman

epa07114908 Pep Guardiola, the Manchester head coach reacts during the UEFA Champions League Group F soccer match Shakhtar Donetsk vs Manchester City in Kharkiv, Ukraine, 23 October 2018.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
 Mynd: EPA

Guardiola og formaður aðdáenda Man City í hár saman

17.09.2021 - 14:06
Pep Guardiola, þjálfari Englandsmeistara Manchester City, og Kevin Parker, formaður stuðningsmannaklúbbs liðsins fóru í hár saman í kjölfar þess að þjálfarinn biðlaði til stuðningsmanna að fjölmenna á leik liðsins um helgina. Formaðurinn sagði honum á móti að halda sig við þjálfunina.

Frá þessu er greint á vefsvæði The Guardian. Aðeins 38.062 manns mættu á heimavöll City, Etihad Stadium sem rúmar 54.000 manns, til að sjá leik liðsins gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu síðastliðið miðvikudagskvöld.

Í viðtölum við fjölmiðla eftir leikinn hafði Guardiola á orði að leikmenn sínir væru þreyttir og hann biðlaði því til stuðningsmanna að mæta um betur á næsta heimaleik sem er um helgina þegar Southampton-menn koma í heimsókn.

Þessi beiðni þjálfarans fór eitthvað öfugt ofan í formann stuðningsmannaklúbbsins. Hann svaraði áskorun Guardiola á þá leið að hann ætti vinsamlegast að halda sig við þjálfun klúbbsins.

Á blaðamannafundi í morgun var Guardiola sýnilega argur yfir athugasemdum formannsins. Hann sagðist undrandi á orðum Parkers og þvertók fyrir að biðja hann afsökunar á því einu að hvetja til betri mætingar stuðningsmanna á völlinn.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem dræm mæting stuðningsmanna á heimavöll Manchester City ratar í umræðuna og hafa gárungarnir uppnefnt leikvanginn „Emptyhad“ fyrir bragðið. 

Þá hristu margir hausinn yfir því þegar félagið auglýsti eftir liðsinni áhrifavalda síðla árs 2019 til að hjálpa félaginu að fá fólk til að mæta á völlinn. Þykir það ekki síst skjóta skökku við þegar haft er í huga að liðið er það sigursælasta í ensku úrvalsdeildinni undanfarin ár, nokkuð sem ætti að tryggja eftirspurn eftir miðum á heimaleiki liðsins.

Leikur Manchester City og Southampton fer fram á morgun, laugardag, kl. 14:00. Hvort stuðningsmenn svara kalli hins sigursæla Guardiola og fjölmenna á völlinn kemur þá í ljós.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Tíu Leedsarar lögðu Manchester City

Fótbolti

Guardiola tvö ár í viðbót með City

Fótbolti

City stendur heiðursvörð fyrir Liverpool í kvöld