Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Yfirlæknir BUGL: Erfitt að vita af börnum sem bíða

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Yfirlæknir á BUGL segir að geðheilbrigðismál barna og ungmenna hafi verið í ólestri í áratugi og stjórnvöld virðist lítinn áhuga hafa á að bæta þar úr. Erfitt sé að vita af börnum sem bíða meðferðar við átröskun.

Rætt var við foreldra tveggja unglingsstúlkna í fréttum RÚV í gær, sem báðar hafa verið greindar með átröskun af geðlæknum. Í báðum tilvikum sendu læknarnir tilvísun á BUGL, síðan eru liðnir mánuðir og engin svör hafa borist.

„Við metum allar tilvísanir strax,“ segir Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir yfirlæknir á BUGL. „Og það kemur skýrt fram á okkar beiðnum að ábyrgðin á meðferð og utanumhaldi er hjá þeim sem vísar til okkar. Og ef þeim aðila þykir málið mjög brýnt, þá er alveg sjálfsagt að hafa samband við okkur. Ef um alvarlega átröskun er að ræða, þá eru þau ekki að bíða lengi.“

Börnin eru veikari en áður

Guðrún segir að nú séu börnin oft veikari en áður þegar þau koma til meðferðar. „Við erum  að fá inn mjög veika krakka, brátt, sem hafa komið fyrst inn á Barnaspítala og svo til okkar. Þannig að það tefur alltaf málin og þetta er auðvitað alls ekki nógu gott ástand.“ Ég held að biðin sé aldrei lengri en 3 mánuðir og ef hún er lengri, þá er það vegna þess að barnið er að fá þjónustu einhversstaðar annars staðar.“

Guðrún segir að BUGL sé eina deildin á landinu sem sinni vanda sem þessum. „Auðvitað eru ákveðnir sálfræðingar á stofum, sem þarf þá að borga fyrir, sem hafa þessa þekkingu og margir þeirra hafa unnið hér. Við höfum líka óskað eftir því að Heilsugæslan taki að sér að geta veitt fyrstu meðferð í þessum málum en þeim sé ekki vísað beint til okkar.“

Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki sýnt neinn „rosalegan áhuga“

RÚV greindi frá því í síðustu viku að mikil fjölgun hefði orðið á bráðakomum og innlögnum á BUGL í kórónuveirufaraldrinum og hefur starfsfólk lýst yfir áhyggjum vegna stöðunnar. Deildin fékk aukafjármagn frá heilbrigðisráðuneytinu fyrir skömmu sem meðal annars á að nýta til að gera fræðsluefni fyrir heilsugæsluna og í úrræði eða þjónustu fyrir foreldra barna sem eru á biðlista.

Guðrún segir það vissulega hjálpa til, en það séu engar nýjar fréttir að BUGL ráði ekki við hlutverk sitt - deildin hafi lengi verið mannfá og undanfarið hafi starfsfólk sagt upp og ekki tekist að ráða í þeirra stað.  „Bæði þessi og annar vandi fer vaxandi. Það hafa verið erfiðleikar í geðheilbrigðismálum barna og unglinga í rauninni alla tíð. og það vantar alveg 2. stigs þjónustu,“ segir Guðrún.

Hún segir að staðan hafi ítrekað verið rædd við heilbrigðisráðuneytið og aðra sem komi að þessum málum. „Það þarf að auka þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Og það er best að það sé gert nær börnunum en ekki á einni stofnun.“

Hver hafa viðbrögð heilbrigðisyfirvalda verið þegar þið hafið vakið máls á þessu? „Það hefur ekki verið neinn rosalegur áhugi. Allavegana ekki í takt við þann vanda sem er til staðar. Það er ekki veitt nógu miklu fé í þjónustu við börn með geðraskanir, skipulagið á þjónustunni er ekki nógu gott og það vantar fagfólk. Það eru þessar þrjár ástæður. Í rauninni hefur verið talað um þennan sama hlut í tugi ára og það hefur lítið breyst.“

Í frétt RÚV í gær sögðu foreldrar stúlknanna að þau hefðu hringt í BUGL. Þeim hefði verið sagt að hringt yrði til baka en það var ekki gert - geturðu svarað fyrir það? „Það er leiðinlegt að heyra ef það hefur ekki verið hringt til baka.  Til okkar er mikið hringt og spurt um biðlista og annað og við höfum reynt að koma því í farveg, sérstaklega í átröskunarmálunum. Þá er yfirleitt alltaf hringt til baka vegna þess að við vitum að það er alvarlegt.“

Biðin getur verið lífshættuleg

Guðrún segir að batahorfur ungs fólks með átraskanir séu miklu betri sé fljótt gripið inn í. „Það skiptir höfuðmáli og það er það sem við höfum getað gert, þangað til í fyrra, þegar beiðnafjöldinn jókst um 70%.“

Er lífshættulegt fyrir börn að bíða mánuðum saman eftir meðferð við átröskun? „Já, það er lífshættulegt, ef barni versnar það mikið að það er hætt að borða og komið í hættulega þyngd. Og þá koma þau náttúrulega hingað, það er bara þannig.“

Munið þið skoða þessi tvö mál sem var fjallað um í fréttum RÚV í gær sérstaklega? „Já, við reynum það, en við vitum ekki nákvæmlega um hvaða mál er verið að ræða.“

Hvernig finnst þér sem yfirlækni á BUGL að heyra af börnum sem eru í þessari stöðu? „Það er bara mjög erfitt að heyra það.“