Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja breyta stefnu í aðgerðum gegn COVID-19

Mynd: RÚV / RÚV
Jóhannes Loftsson, formaður nýja stjórnmálaaflsins Ábyrgrar framtíðar sem býður fram til Alþingis í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir þeirra aðaláherslumál vera að breyta um stefnu í aðgerðum gegn COVID-19. Hann segir flokkinn ætla sér að standa vörð um lýðræði, mannréttindi og gagnrýna hugsun.

Jóhannes segir flokkinn vilja leyfa fleiri lyf gegn COVID-19 og að öllum takmörkunum verði aflétt í samfélaginu.

Hann segir Ábyrga framtíð ekki vera á móti bólusetningum í heild, en að almenningur hafi ekki fengið færi á að gefa upplýst samþykki fyrir þeim. Þau telja jafnframt óbólusettum einstaklingum í samfélaginu vera mismunað og að þöggun hafi átt sér stað varðandi aukaverkanir bóluefna.

Þetta er meðal þess sem kom í viðtali við Jóhannes í Forystusætinu á RÚV í kvöld, en viðtalið má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.

Rætt er við formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eru í framboði fyrir alþingiskosningarnar 25. september í Forystusætinu. Dregið var um röðina af handahófi. Ítarlega umfjöllun um kosningarnar má finna á kosningavef RÚV, ruv.is/x21.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV