Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stjarnan mætir Njarðvík í bikarúrslitunum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stjarnan mætir Njarðvík í bikarúrslitunum

16.09.2021 - 21:45
Stjarnan vann fimm stiga sigur á Tindastóli 86-81 í æsispennandi leik í undanúrslitum VÍS-bikarsins í körfubolta í kvöld. Það er því ljóst að Stjarnan mætir Njarðvík í úrslitunum.

Leikurinn var afar hraður og jafn strax í fyrsta leikhluta og Stjönumenn leiddu að honum loknum með fjórum stigum 24-20. Tindastólsmenn hrukku svo í gírinn í öðrum leikhluta og Stjörnumenn áttu í stökustu vandræðum með að stoppa þá, og Tindastóll leiddi með níu stigum í hálfleik 39-48.

Seinni hálfleikurinn var ekki síður spennandi en sá fyrri og Stjörnumenn voru ekki lengi að endurheimta forystuna og leiddu með fjórum stigum fyrir lokaleikhlutann 67-63. Þá tók við æsispennandi lokaleikhluti og það var allt í járnum þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks. Stjörnumenn voru svo með nauma forystu en tveimur stigum munaði þegar mínúta var eftir 82-80 Stjörnunni í vil. Stólunum tókst þó ekki að minnka muninn og heimamenn áttu lokaorðið. Lokatölur því 86-81 og Stjarnan mætir Njarðvík í úrslitaleiknum.

Úrslitin eru á laugardaginn kemur en úrslitaleikurinn er klukkan 19:45. Í kvennaflokki mætast Haukar og Fjölnir í leik sem hefst kl. 16:45 en báðir verða þeir í beinni útsendingu á RÚV.