Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir fjölskyldur í Fossvogi í erfiðri stöðu

16.09.2021 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Foreldrar í Fossvogi eru þreyttir á röskun á skólastarfi vegna mygluskemmda. Starfsemi leikskólans Kvistaborgar færist tímabundið í Safamýri næsta þriðjudag þegar framkvæmdir hefjast í leikskólanum vegna rakaskemmda. Skólastarf Fossvogsskóla fer að hluta til fram í Korpuskóla og að hluta í húsnæði Hjálpræðishersins um þessar mundir af sömu ástæðu. Ástríður Viðarsdóttir, formaður foreldrafélags Kvistaborgar, hefur ekki síst áhyggjur af foreldrum sem eiga börn í báðum skólum.

„Þetta kemur fólki í erfiða aðstöðu. Það þarf að fara kannski á nokkra staði á hverjum morgni í traffík. Margir eru með börn líka í Fossvogsskóla sem þurfa þá að fara alla leið í Korpuskóla. Þetta er erfið staða sem er verið að koma fólki í. Svo eru margir sem eru að reyna að lifa bíllausum lífstíl en þurfa að keyra alla daga, því þetta er alveg það langt og það er ekki hægt að láta börn ganga eða hjóla þessa vegalengd,“ segir Ástríður. Það komi henni á óvart að það sé ekki boðið upp á rútur sem ferja börnin úr Fossvogi yfir í Safamýrina.  Þá segir hún að foreldrar hafi ekki enn fengið að sjá aðstöðuna í Safamýri. 

Að minnsta kosti fjögur ár er síðan myglu varð fyrst vart í leikskólanum og endurbætur virðast ekki hafa skilað nægum árgangri. Verkfræðistofan Efla hefur nú mælt með að farið verði í gagngerar endurbætur á elsta hluta skólans sem byggður var 1972 og hentar illa starfi nútímaleikskóla. Leikskólastarfið verður í Safamýri, í gamla Safamýrarskóla, að minnsta kosti til áramóta.

Ástríður telur síst við skólastjórnendur að sakast og hefur áhyggjur af því að flutningarnir bitni á starfsfólki. „Þau vilja láta þetta ganga sem allra best. Ég hef aldrei þurft að kvarta yfir neinu þar, þau eru alltaf ótrúlega jákvæð. Auðvitað setur þetta líka starfsfólkið í vonda stöðu, til dæmis þá sem eru vanir að ganga í vinnuna,“ segir hún. Þá óttast hún að foreldrar verði seinni að sækja börnin sín í skólann, og að það bitni á starfsfólki. 

Það sé þó fyrir öllu að koma börnum út úr rakaskemmdum. „Ég veit ekki hversu slæmt ástandið er en  vona að það sé ekki hræðilegt. En svo fær maður póst þar sem segir að mögulega þurfi að rífa leikskólann, og þá auðvitað verður maður svolítið stressaður. Auðvitað langar engan að vera með börnin sín í mygluðu umhverfi. Maður vill bara að börnin fari eitthvað annað og það strax.“