Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óbólusett heilbrigðisstarfsfólk sent heim

epa09094467 Medical workers are seen in a vast COVID-19 vaccination center set up inside the national Velodrome in Saint-Quentin-en-Yvelines, near Paris, France, 24 March 2021. French President Emmanuel Macron announced on 23 March to change his strategy and to push for a mass vaccination due to a rise of coronavirus infections in northern France and the Paris region.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA-EFE
Nokkur þúsund franskir heilbrigðisstarfsmenn hafa verið sendir í launalaust leyfi fyrir að hafa ekki látið bólusetja sig gegn kórónuveirunni innan tiltekins frests. Vonast er til að flestir snúi aftur til starfa eftir bólusetningu.

Franskt heilbrigðisstarfsfólk hafði frest til gærdagsins, 15. september, til að fara að fyrirskipun stjórnvalda um að láta bólusetja sig. Olivier Veran heilbrigðisráðherra greindi frá því í útvarpsviðtali í dag að um það bil þrjú þúsund starfsmönnum á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og læknastofum hefði verið tilkynnt í gær að þeir ættu ekki að mæta í dag þar sem þeir hefðu ekki hlýtt fyrirmælum um bólusetningu. Nokkrir tugir hefðu tilkynnt að þeir ætluðu að láta af störfum af þessum sökum.

Að sögn ráðherrans vinna tvær komma sjö milljónir í heilbrigðisgeiranum, þannig að aðgerðirnar eiga ekki að valda truflun á þjónustunni.  Hann kvaðst vonast til að flest ætti starfsfólkið eftir að snúa til starfa sinna á ný þegar það hefði farið að fyrirmælum. 

Emmanuel Macron forseti tilkynnti í júlí að slökkviliðsmenn og starfsfólk á sjúkrahúsum og annars staðar í heilbrigðisgeiranum, svo sem á hjúkrunarheimilum, hefði frest til 15. september til að láta bólusetja sig. Ella yrði því vikið úr starfi án launa. Margir Frakkar draga í efa gagnsemi bólusetninga gegn kórónuveirunni. Eigi að síður hafa sjötíu prósent landsmanna verið bólusett að fullu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV