Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kínverjar fordæma hernaðarsamvinnu

16.09.2021 - 14:11
Mynd með færslu
Breski kjarnorkukafbáturinn HMS Ambush á siglingu. Mynd: Breski sjóherinn
Ástralar, Bretar og Bandaríkjamenn hafa komist að samkomulagi um aukið hernaðarsamstarf á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Kínverjar fordæma samkomulagið og segja það valda óstöðugleika í heimshlutanum.

Hið nýja hernaðarsamstarf kallast AUKUS. Leiðtogar ríkjanna þriggja kynntu það í gærkvöld. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að flotinn á hafsvæðinu yrði nútímavæddur til að bregðast við nýjum ógnum sem að steðjuðu. Hvorki Biden, Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands né Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu nefndu Kína á nafn, en fáum blandast hugur um að hernaðarsamstarfið beinist gegn auknum hernaðarumsvifum Kínverja á Suður-Kínahafi - enda hafa ráðamenn í Peking brugðist ókvæða við. Þeir segja að samkomulagið sýni afar mikið ábyrgðarleysi og ógni friði og stöðugleika í heimshlutanum. 

Samkvæmt AUKUS-samkomulaginu ætla ríkin þrjú að deila með sér háþróuðum hertæknibúnaði. Til dæmis fá Ástralar afnot af kjarnorkuknúnum kafbátum, sem þó verða ekki búnir kjarnorkuvopnum. Það hefur valdið hörðum viðbrögðum í Frakklandi, þar sem Ástralar sömdu fyrir fimm árum við frönsku herskipasmíðastöðina Naval Group um smíði tólf dísilknúinna kafbáta. Samkomulagið var metið á yfir þrjátíu milljarða evra, en því hefur nú verið rift. Utanríkisráðherra Frakklands orðaði það svo í viðtali í dag að tíðindin væru sem hnífsstunga í bak Frakka. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV