Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Kemur í ljós hvar við stöndum raunverulega“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

„Kemur í ljós hvar við stöndum raunverulega“

16.09.2021 - 15:33
Þorsteinn Halldórsson þjálfari íslenska kvennalandsliðsins segir að það verði áhugavert að sjá hvers konar áhrif nýr landsliðsþjálfari muni hafa á hollenska landsliðið. Ísland mætir Evrópumeisturum Hollands á þriðjudag í undankeppni HM. Þorsteinn sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag.

„Þetta lítur bara vel út, bara ánægður með hvernig mannskapurinn hefur verið þannig ég er bara sáttur við standið á hópnum,“ segir Þorsteinn um standið á leikmönnum. Það varð þó ljóst í morgun að Hlín verður ekki með á þriðjudaginn og því hefur Þorsteinn kallað Diljá Ýr Zomers inn í hópinn í hennar stað. „Ég tel hana hafa staðið sig vel og það er áhugavert að skoða hann enn frekar og sjá hvar hún er stödd og hvort hún geti ekki bara nýst okkur vel,“ segir Þorsteinn um Diljá.

Vonast til að Parsons breyti sem mestu

Mark Parsons tók nýverið við sem þjálfari hollenska liðsins en hann þjálfaði áður The Portland Thornes í bandarísku kvennadeildinni. Þorsteinn segir að það sé erfitt að meta hvaða áhrif það muni hafa á hollenska liðið en Holland mætir Tékklandi á morgun. „Auðvitað vonast maður eftir því að hann breyti bara andskoti nógu miklu. Það á bara eftir að koma í ljós við þurfum bara að skoða þennan leik á morgun. Við erum búnir að skoða mikið það sem Holland hefur verið að gera undanfarið, ég hef líka verið að skoða mikið það sem Mark hefur verið að gera með Portland þannig að það verður bara áhugavert að sjá hvernig hann kemur inn í leikinn á morgun með stuttan undirbúning. Þetta verður í raun fyrsti leikurinn sem hann stýrir liðinu,“ segir Þorsteinn. 

Áhugavert verði að sjá hvað hann ætli sér með Holland. „Hvort hann ætli að gera miklar breytingar, taktískar eða hvað það er. Í Portland í dag er hann ekki að spila sama leikkerfi og hollenska landsliðið er að spila þannig að það er bara spurning hvort hann móti sitt. Ef hann vill spila alltaf svona þá verður áhugavert að sjá hvort hann færi það yfir á hollenska liðið eða hvort hann taki við grunninum sem er þar og haldi áfram að vinna með hann.“

Því segir Þorsteinn það jákvætt að geta séð þennan leik á morgun. „Þá rennum við ekki eins blint í sjóinn með það hverskonar breytingar hann komi til með að gera og hvort það séu miklar breytingar á spilamennsku liðsins og hugmyndafræðinni.“

„Auðvitað þurfa leikmenn að spila fótbolta“

Þá var hann spurður út í Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur sem aðeins leikið einn leik með Houston Dash eftir að hún gekk til liðs við liðið í sumar og af hverju hún væri valin frekar en Berglindi Rós Ágústsdóttir. „Það er ókostur að Andrea Rán er ekki að spila með Houston en Andrea hefur staðið sig gríðarlega vel með okkur í síðustu tveimur gluggum. Hennar eiginleikar eru töluvert öðruvísi heldur en Berglindar þannig að ég lít á það í þessu verkefni að hennar eiginleikar eiga að geta hjálpað okkur. En ef hún er ekkert að fara spila á næstunni þá er það ekkert að hjálpa, auðvitað þurfa leikmenn að spila fótbolta,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn hefur stýrt liðinu í tveimur landsleikjagluggum í vináttuleikjum og hann segist sjálfur ekki átta sig á hve langt hann sé kominn í því að koma sínum áherslum í spilamennsku liðsins. „Ég hugsa að það komi bara í ljós á þriðjudaginn. Þá kemur í ljós hvar við stöndum raunverulega og hversu langt við erum komin. Leikurinn er stór og mikilvægur en þá sjáum við hvort það sé að nást sem við viljum gera.“

Elín Metta Jensen er meidd og verður ekki með. Svava Rós Guðmundsdóttir var í hennar stað kölluð inn í hópinn. Þá var Þorsteinn spurður út í muninn á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og Elínu Mettu. „Þær eru ólíkir leikmenn það er ekkert vafamál, þær hafa spilað akkúrat jafn margar mínútur hjá mér. Þannig það er bara Berglindar að grípa tækifærið núna og stimpla sig inn. Berglind er góð í að halda bolta, góð í spila honum fljótt frá sér, Elín er fín í að halda boltanum en aðeins lengur að spila honum frá sér. Heilt yfir hefur það verið ágætis jafnvægi með þær tvær þarna,“ segir Þorsteinn.

Leikur Íslands og Hollands er á þriðjudaginn kemur klukkan 18:45 og verður í beinni útsendingu á RÚV.