Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Hvað gerist eftir að símarnir verða batteríslausir?“

Mynd: Menning / RÚV

„Hvað gerist eftir að símarnir verða batteríslausir?“

16.09.2021 - 11:19

Höfundar

Þétting hryggðar nefnist nýtt leikverk Halldórs Laxness Halldórssonar sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu í kvöld.

Una Þorleifsdóttir leikstýrir verkinu en í því kemur borgarskipulag, ný hverfi og mannleg samskipti við sögu. „Verkefnið var upphaflega að skrifa verk um að vera Reykvíkingur og við áttum að taka viðtöl við fólk út um allan bæ. Við vorum búin að plana viðburði í bókasöfnum og halda fundi með fræðsludeild Borgarleikhússins, ætluðum í mat heim til fólks. Svo skall á alheimsfaraldur og við vorum alltaf að fresta þessu um viku og viku þangað til að við Una ákváðum bara að skrifa verk um Reykjavík og sorgir Reykvíkinga, segir Halldór.“ Titillinn vísar til borgarskipulags sem fjallað er um með beinum og óbeinum hætti. „Borgarskipulag var ágætis útgangspunktur þar sem það skiptir okkur svo mikið í tvennt.“

Með hlutverk fara Jörundur Ragnarsson, Rakel Ýr Stefánsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Vala Kristín Eiríksdóttir. 

Skortur á hlustun

Að sögn Unu fjallar verkið meðal annars um samskipti og týpudrætti „Það sem Dóri gerir í skrifunum og mér finnst áhugaverðast að takast á við er hvernig við tölum saman í samtímanum. Mér finnst Dóri ná að fanga þennan skort á hlustun í samskiptum sem oft einkennir samfélagsmiðla og hvernig við dæmum fólk fyrir það hvað við höldum að það sé, eða hvar það býr, hvernig það hegðar sér, hvernig það lítur út. Við gerum fólki upp ákveðnar skoðanir og ákveðnar hugmyndir, setjum fólk í flokka og eigum samskipti við það út frá því. Í verkinu eru þetta fjórar persónur sem þekkjast ekki neitt og það er það sem mér finnst áhugavert, hvernig þessi samskipti sem við vanalega eigum kannski í skjóli tölvuskjásins hvernig þau spilast úti í raunheimi,“ segir hún. 

Misskilin gervigreind

Söguþráð verksins dregur Halldór þannig saman: „Verkið er um fjóra Reykvíkinga sem eru læstir inni í fundarherbergi á aðalskrifstofum Reykjavíkurborgar af öryggisástæðum og eru einangraðir þar inni. Við getum sagt að verkið sé svar við spurningunni „hvað gerist eftir að símarnir verða batteríslausir?“ Við skrifin sótti Halldór meðal annars innblástur í bókina Skjáskot. „Þegar ég las bók vinar míns Bergs Ebba greip sig um í mér, þegar hann talaði um að við gætum hafa misskilið gervigreindina: að gervigreind sé ekki tölvur að eignast mannlega eiginleika heldur fólk að eignast eiginleika tölva.“

Nánari upplýsingar um Þéttingu hryggðar má finna hér. 

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Hvaða fertugi karl byrjar að vinna í Húsdýragarðinum?

Bókmenntir

„Við slúðrum líka við frændsystkinin“

Leiklist

Frumlegt og vitsmunalegt framhald

Leiklist

Gott fólk á gráu svæði