Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Fáum vonandi skýr merki áður en eitthvað fer af stað“

16.09.2021 - 08:11
Innlent · Askja · landris
Myndir úr Sumarlandanum 2021 https://www.ruv.is/frett/2021/07/21/fa-aldrei-nog-af-obyggdunum
 Mynd: Sturla Holm Skúlason - RÚV
Land við Öskju rís enn eftir að þensla hófst þar í byrjun ágúst. Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir óvíst hvort gos myndi gera boð á undan sér.

„GPS-mælingar og gervihnattarmyndir gefa til kynna að það sé mögulega eitthvað kvikuinnskot á ferðinni þar. Land rís óvenjuhratt rétt vestan við Öskjuvatn og nú er komið upp undir níu sentímetra ris á nokkrum vikum, sem er mjög mikið. Það er vísbending um að það sé mögulega kvikuinnskot á ferðinni. Þetta kvikuinnskot virðist vera frekar grunnt, sem vekur ugg hjá sumum. Við vonum bara að við fáum mjög skýr merki áður en eitthvað fer af stað,“ segir hún. 

Stöðug púlsavirkni við Fagradalsfjall

Lokað var fyrir umferð að gosstöðvunum við Fagradalsfjall fyrir hádegi í gær, og svæðið rýmt, þegar hraun tók að renna hratt að varnargörðum við Nátthagakrika og svo ofan í Nátthaga. Hulda Rós segir að virknin hafi verið nokkuð stöðug í nótt en að Veðurstofan fylgist grannt með hraunrennslinu í dag.

„Það er erfitt að segja til um það hvar það brýst út og hvert það flæðir. Það getur greinilega gerst mjög hratt, eins og í gær. Þá var fólk á gönguleið A sem var mögulega í hættu. Við þurfum að fylgjast vel með og passa að fólk sé ekki á hættulegum stöðum þarna,“ segir Hulda.

Goshegðunin sé svipuð og verið hefur: „Það er þessi púlsavirkni með nokkrum púlsum á klukkutíma.“