Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Færeyingar endurskoða umdeildar höfrungaveiðar

16.09.2021 - 17:33
Mynd með færslu
 Mynd: Hafþór Svanur Svansson
Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyinga, hefur tilkynnt að landstjórnin ætli að endurskoða reglugerð um höfrungaveiðar. Færeyingar hafa nýverið sætt mikilli gagnrýni dýra- og náttúruverndarsinna vegna veiða á tannhvölum af höfrungaætt, en síðastliðinn sunnudag var yfir 1400 höfrungum slátrað í Skálafirði við eyjarnar.

Vilja skoða hlutverk veiðanna í samfélaginu

Bárður segir að enn sé litið á veiðarnar sem sjálfbærar. Engu að síður sé talin ástæða til að meta hvaða „hlutverki veiðarnar skipi í færeysku þjóðfélagi,“ segir í tilkynningu.

Metfjölda slátrað í ár

Veiðarnar, sem heimamenn kalla grindardráp, hafa verið hluti af menningu Færeyinga í aldaraðir. Gagnrýni á þennan hluta færeyskrar menningar er ekki nýtilkomin, en nú virðist hins vegar mörgum hafa brugðið vegna umfangsins.

Formaður færeyska hvalveiðiráðsins segir marga Færeyinga hafa verið slegna vegna fjölda tannhvala sem drepnir voru í ár. Breska ríkisútvarpið segir þetta vera mesta fjölda sem drepinn hefur verið í einu í grindardrápum.

Landstjórnin hefur nú tekið undir að aðstæður í ár hafi verið óvenjulegar og segir í tilkynningu: „Aðstæður þann 12. september voru einstakar ef horft er til fjöldans. Það þýddi að förgunin tók óvenjulangan tíma.“