Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Duterte vinnur ekki með Alþjóðlega sakamáladómstólnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Facebook
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segir af og frá að hann aðstoði Alþjóðlega sakamáladómstólinn við rannsókn á stríði hans gegn fíkniefnum. Lögfræðingur hans segir dómstólinn ekki hafa lögsögu í landinu.

Máli sínu til stuðnings áréttar Salvador Panelo, lögmaður Dutertes, að forsetinn hafi ákveðið að Filippseyjar segðu skilið við Rómarsamþykktina og þar með dómstólinn.

Dómstóllinn situr í Haag í Hollandi. Hann var settur á laggirnar árið 2002 en Rómarsamþykktin var gerð fjórum árum fyrr.

Með henni samþykktu 120 ríki stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls sem getur meðal annars sótt mál vegna þjóðarmorða, stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyni. 

Þar sem Filippseyjar eru ekki lengur aðili að dómstólnum segir lögmaður Duterte að fulltrúum hans verði ekki leyft að koma inn í landið í upplýsinga- og sönnungargagnaleit.

Dómarar við dómstólinn heimiluðu rannsókn í gær en mannréttindasamtök álíta að tugir þúsunda hafi fallið í valinn í því sem þau kalla kerfisbundna og ólöglega atlögu að almennum borgurum.

Opinberar tölur lögregluyfirvalda segja fjöldann vera um sex þúsund frá því að aðgerðirnar hófust 2016. Duterte hefur ávallt haft horn í síðu Alþjóðlega sakamáladómstólsins og sagt fyrirhugaða rannsókn vera svívirðilega og tilhæfulausa árás á sig.