Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bókanir á bókanir ofan vegna GAJU

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hörð orðaskipti áttu sér stað á milli meirihluta og minnihluta á fundi borgarráðs í morgun þegar upplýst var um mygluvandræði GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu. Bókanir og gagnbókanir gengu á víxl og stóryrðin voru síst spöruð.

Meirihlutinn hóf að gagnrýna borgarfulltrúa fyrir að finna GAJU allt til foráttu og tala hana ítrekað niður þegar hún væri mikilvægur liður í að innleiða hringrásarhagkerfið og myndi að endingu skila allt að 90 þúsund tonna samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Gefa þyrfti GAJU tíma og sníða af henni vankanta þar til hún kemst í full afköst.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu að fjölmörg mistök hefðu verið gerð frá upphafi verkefnisins. Kostnaður hefði farið langt fram úr áætlun, moltan sem þar væri framleidd væri menguð plasti og þungmálumum, flokkun með blásara hefði gjörsamlega misheppnast og nú væri komin mygla í húsið.

Myglan ekki stóra atriðið

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókaði að ákvörðun um GAJU hefði verið óheillaskref ef horft væri til þess sem gengið hefði á og Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Miðflokksins, sagði GAJU löngu hafa breyst í martröð sem borgarmeirihlutinn bæri ábyrgð á. „Hver tekur ákvarðanir? Er það ekki stjórnin sem ákveður það úr hverju byggingin er hverju sinni. Er það verkfræðistofan, var verið að spara eða hvað er verið að gera með því að setja límtré í þessa bita? En þessi mygla er ekki stóra atriðið finnst mér í þessu GAJA máli. Það eru þessir sex milljarðar sem eru nú þegar farnir í verksmiðjuna og það er ónýt framleiðsla sem kemur út úr henni,“ segir Vigdís við fréttastofu.  

Þarf að endurskoða byggðasamlögin

Sanna Magdalenda Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, lét vera að leggja fram bókun á fundi borgarráðs en segir að skoða þurfi samsetningu byggðasamlaga upp á nýtt. Gera þurfi þau opnari og lýðræðislegri þannig að ábyrgðin verði skýrari. „Að tryggja að þar séu fleiri raddir og lýðræðislega aðkomu þeirra sem koma að þessum byggðasamlögum. Og þá þarf einmitt að vera þar líka starfsfólk og raddir þeirra, að þetta séu ekki bara kjörnir fulltrúar. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við horfum fram á veginn.“