Undanúrslit í bikarnum í beinni á RÚV 2 í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Undanúrslit í bikarnum í beinni á RÚV 2 í kvöld

15.09.2021 - 10:27
Undanúrslit VÍS-bikars kvenna í körfubolta eru í kvöld þar sem mætast annars vegar Fjölnir og Njarðvík og hins vegar Valur og Haukar. Báðir leikirnir verða í beinni útsendingu á RÚV 2.

Valskonur eru ríkjandi Íslandsmeistarar í körfubolta en liðið mætti einmitt Haukum í úrslitaeinvíginu í vor. Valur vann þar allar þrjár viðureignir liðanna. Síðan þá hefur þó ýmislegt breyst og til að mynda hefur Helena Sverrisdóttir gengið til liðs við uppeldisfélag sitt Hauka frá Val en Helena var stigahæst í 87-59 sigri Hauka á Keflavík í átta liða úrslitunum. Valur komst í undanúrslitin með sannfærandi sigri á Stjörnunni 79-53.

Njarðvík tryggði sér sæti í undanúrslitunum með afar sannfærandi 84-39 sigri á ÍR en Fjölnir vann sömuleiðis örugglega þegar liðið mætti Breiðabliki í átta liða úrslitum 83-55.

Leikur Fjölnis og Njarðvíkur byrjar kl. 18:00 og leikur Vals og Hauka kl. 20:00 og verða báðir leikirnir í beinni útsendingu á RÚV 2.