Sagði sakborningana vera hluti en ekki manneskjur

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Náinn vinur og samstarfsmaður Armando Beqiri fór býsna hörðum orðum um sakborningana í Rauðagerðismálinu í skýrslutöku sinni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og sagði þá ekki vera manneskjur heldur hluti. Hann kannaðist ekki við að hann og Armando Beqiri hefðu verið að reyna kúga fé út úr Íslendingnum sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins eins og Angjelin Sterkaj, sem hefur einn játað sök í málinu, fullyrti í skýrslutöku sinni.

Samstarfsmaðurinn lýsti því að deilurnar og hótanirnar sem hefðu gengið milli Armando og Angjelins væru í raun eðlileg samskipti milli Albana og taldi að engin alvara byggi þarna að baki.

Hann sagðist vita hver Íslendingurinn væri, sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum, og að þeir ættu sameiginlega kunningja. Þeir væru ekki vinir en heldur ekki óvinir. Ekkert vesen hefði verið á milli þeirra.

Saksóknari spurði hann um fréttir þess efnis að Íslendingurinn hefði verið upplýsingagjafi lögreglu. Viðkvæm gögn um þess háttar samskipti voru birt á netinu fyrr á þessu ári. Hann sagði alla hafa vitað af því og það hefði ekki komið neinum á óvart en vísaði því á bug að hann hefði átt þátt í því að reyna kúga fé út úr Íslendingnum vegna þessara upplýsinga.

Hann var síðan spurður út í símtal milli Armando og Angjelin á fimmtudagskvöldinu fyrir morðið. Hann sagði þetta samtal hafa farið fram á albönsku  og hann því ekki skilið hvað fór fram. Hann hefði síðan heyrt af nokkrum dögum seinna að Angjelin hefði í þessu símtali hótað að drepa Armando.

Hann sagðist hafa rætt við Íslendinginn eftir þetta símtal þar sem honum hefði ekki litist á blikuna.  Íslendingurinn hefði vísað því á bug að hann vildi ráðast á Armando en sagst vita hverjir vildu það.   Þegar hann var spurður hvort  Angjelin og Íslendingurinn væru vinir og svaraði hann að Íslendingurinn ætti enga vini og Angjelin hefði bara verið kjölturakkinn hans.

Hann ítrekaði í skýrslutöku sinni að hótanir milli Albana væru daglegt brauð og það mætti ekki að taka þær of alvarlega. Þeir hótuðu stundum að drepa fjölskyldur hvors annars en síðan væri allt fallið í ljúfa löð daginn eftir. 

Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelin  spurði vitnið hvort það ætti skothelt vest þar sem það hefði fullyrt í skýrslutöku hjá lögreglu að það gengi alltaf í skotheldu vesti.  Vitnið lyfti við það tækifæri Boss-polobol sínum og sagðist ekki vera í skotheldu vesti núna.

Verjandinn spurði enn fremur hvort það kannaðist við einhverja skuld sem það hefði reynt að innheimta hjá Íslendingnum, eins og Angjelin hefði fullyrt. Nei, var svarið, allt sem Angjelin segði væri lygi og hann væri sjúkur í höfðinu.

Verjandinn varpaði síðan upp  Messenger-skilaboðum milli vitnisins, annars manns og Armando, sem voru send nokkrum dögum fyrir morðið. Og vildi vita hvort í þessum skilaboðum væri verið að ræða hvað Íslendingurinn ætti að borga . Vitnið reyndi að gera lítið úr þessum skilaboðum, sagði að sum þeirra væru sögð í hálfkæringi og að stundum væru menn ekki að tala um sömu hlutina.