Sagði Angjelin hafa verið rólegan skömmu eftir morðið

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Þriðji dagur aðalmeðferðar í Rauðagerðismálinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur hófst á skýrslutöku yfir vinkonu Angjelin Sterkaj og Claudiu Sofiu Carvahlo. Vinkonan sagði Angjelin hafa tjáð sér að syni hans hefði verið hótað og að hann hefði verið órólegur skömmu áður en hann fór í snjósleðaferð norður í land helgina sem Armando Beqiri var myrtur. Hann hefði hins vegar verið rólegur þegar hún hitti hann á þriðjudeginum.

Smá rekistefna varð í upphafi skýrslutökunnar því upphaflega var talið að vinkonan væri frá Spáni og því hafði saksóknari útvegað spænskan túlk. Í ljós kom að hún var frá Ítalíu en það kom ekki að sök þar sem hún var einnig altalandi á spænsku.

Vinkonan sagðist hafa kynnst Claudiu Carvahlo og Angjelin Sterkaj fyrir tveimur árum þegar hún var að vinnna á veitingastað í miðborg Reykjavíkur.  Hún sagðist ekkert vita hvað hefði gerst í Rauðagerði fyrr en hún frétti af því seinna og hún kannaðist ekki við neinar deilur milli Armando Beqiri og Angjelin. 

Saksóknari vildi fá að vita hvort hún hefði heyrt af einhverjum hótunum í garð Angjelin. Vinkonan sagðist hafa heyrt af stöku hótunum en vissi ekki hverjir eða hver hefði verið að hóta honum.  Hún kvaðst hafa reynt að hringja í Claudiu á laugardeginum sem Armando var myrtur en fengið þær upplýsingar að hún væri veik. 

Hún hitti Angjelin á þriðjudeginum eftir morðið og fékk sér nokkra bjóra með honum. Hann hefði ekki sagt henni frá neinu sem gerðist og hafi ekki virst í neinu uppnámi. Hann hafi hins vegar virst áhyggjufullur áður en hann fór í snjósleðaferð norður í land og sagt að það tengdist eitthvað syni hans. 

Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelins, spurði vinkonuna nánar út í hótanirnar og hvort hún vissi um hvað þær snerust.   Hún sagðist ekki muna það vel en kvaðst halda að hann hefði sagt þær snúast um son hans. Angjelin sakaði í skýrslutöku sinni Armando Beqiri um að haft í hótunum við sig vegna sektar sem hann vildi að íslenskur karlmaður greiddi. Íslendingurinn sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum Reykjavíkur. Þær hótanir hefðu meðal annars snúist um son hans.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV