Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rýming við gosstöðvar vegna aukins hraunflæðis

Mynd: Gunnar S Einarsson / Gunnar S Einarsson
Lokað var fyrir umferð að gosstöðvunum vegna hraunflæðis fyrir hádegi. Var það gert af öryggisástæðum, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Um klukkan eitt var opnað að hluta á ný.

Viðbragðsaðilar þurfa nú svigrúm til að meta að nýjar aðstæður, segir í tilkynningunni, en eins og sést í meðfylgjandi myndskeiði hefur hraun tekið að flæða yfir stórt svæði og úr Geldingadölum.

Hraun flæðir nú niður í Nátthaga, þar sem hraunrennslið hefur verið lítið sem ekkert síðustu vikurnar. Vinsælt hefur verið að ganga um Nátthaga og skoða þar hraun sem rann í sumar og vor.

Gunnar Schram yfirlögregluþjónn segir að björgunarsveitir hafi verið kallaðar út og þær fylgi fólki af svæðinu, ásamt lögreglu og landvörðum. Gunnar segir um lokunina að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða, þar til hlutirnir skýrast nánar.

Hraunið spratt afar hratt fram 

Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavörnum, sagði í hádegisfréttum að hraunið hafi farið að renna hratt og náð á tuttugu mínútum að varnargörðum við Nátthagakrika, og fór síðan að flæða ofan í Nátthaga.

„Síðustu daga hafa verið merki um að hraun hafi verið að safnast saman í Geldingadölum þar sem gosið hófst. Svo virðist sem sú tjörn hafi safnað nógu miklu magni til þess að spretta fram núna,“ segir Björn. Það er þó ekki hægt að fullyrða að hraunframleiðsla hafi aukist.

„Það er of snemmt að segja til um það. En það eru engir kvikustrókar eða neitt þar sem uppsprettan er sem bendir til þess að þetta sé ný sprunga að opnast að slíkt. Þetta sýnir okkur bara hversu síbreytilegt þetta umhverfi er hérna. Í gær rann til norðurs, þá var allt með kyrrum kjörum hér, en svo gerist þetta á skömmum tíma. Það hefur ekkert hægt á uppsprettunni sjálfri svo við verðum bara að sjá hvað dagurinn ber í skauti sér,“ segir Björn Oddsson.

Fréttin hefur verið uppfærð.