Óvíst hvort tilslakanir hafi áhrif á skólastarf

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚV/Kastljós
Enn er óvíst hvort nýjustu tilslakanir á sóttvarnareglum, sem tóku gildi á miðnætti, hafi áhrif á starfsemi leik- og grunnskóla. Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, telur að varfærni og hólfaskipting í grunnskólum hafi skilað árangri.

„Við stóðum frammi fyrir því í haust að vera búin að fá töluvert af smitum inn í frístund og leikskóla áður en grunnskólarnir byrjuðu. Þá var ákveðið hér á höfuðborgarsvæðinu, fræðslustjórar í samvinnu við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins, að fara varlega inn i skólastarfið, vera með hólfanir og annað, hluti sem við þekkjum úr fyrri bylgjum. Oh það er okkar mat að þær aðgerðir hafi skilað árangri, og að annars hefðu smitin verið fleiri.“ segir Jón Viðar í samtali við fréttastofu. 

Nú standi til að taka stöðuna og skoða nýju reglugerðina: „Og við munum eiga samtal, fræðlsustjórar á höfuðborgarsvæðinu ásamt almannavörnum á höfuðborgarsvæðinu núna í vikunni, sem vega og meta hvað við ætlum að gera,“ segir hann.

Þær takmarkanir sem nú gilda í grunn- og leikskólum eru fyrst og fremst hólfaskiptingar, til þess að tryggja að sem fæstir þurfi að fara í sóttkví, greinist smit í skólum. Hólfin eru misstór eftir skólum og Jón Viðar segir að skólastjórnendur fái að miklu leyti frjálsar hendur í því að skipuleggja hólfaskiptingu. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV