Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lögregla hafði afskipti af fólki á gosstöðvunum

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Helgason - RÚV
Ekki tóku allir jafn vel í tilmæli björgunarsveita þegar fólki var vísað frá gosstöðvunum á Reykjanesskaga fyrr í dag. Lögregla hafði afskipti af einstaklingum sem sinntu ekki tilmælum björgunarsveita.

Björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út þegar skyndilega varð vart aukins hraunflæðis yfir í Nátthaga á gosstöðvunum á Reykjanesskaga um hádegisbilið í dag. Fólki var vísað burt af hættusvæðinu. Flestir tóku tilmælum björgunarsveita vel en þó ekki allir.

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík, telur að á bilinu 200-300 hafi verið á svæðinu sem þurfti að rýma vegna aukins hraunflæðis. 

„90% af þeim er náttúrulega bara kurteist og flott fólk og hinkrar bara og bíður eftir tilmælum en svo eru þessir þarna inni á milli sem eru bara erfiðir og þá tekur lögreglan við.”

En var fólk í hættu? 

„Ja sko undir venjulegum kringumstæðum hefði kannski enginn verið í hættu en gallinn við þetta er að fólk er fljótt að koma sér í það. Það þarf eiginlega svona barnaeftirlit, ef maður á að orða það þannig.”  

Að sögn Boga gekk björgunarsveitum að mestu leyti vel að athafna sig á vettvangi og fljótlega var hægt að opna á ný, fyrir utan A-gönguleiðina svokölluðu. Bogi segir að gasmengun hafi verið það mikil í kringum hana að ekki taldist óhætt að hafa hana opna. 

„Við [í björgunarsveitunum] erum náttúrulega með mæla, grímur og annað, og við bökkum bara þegar gasmælirinn fer af stað og sjáum hvað hann gerir. Hinir labba nær,” bendir Bogi á.

„Maður skilur það svo sem alveg, því þetta er spennandi. Fólk þarf hins vegar aðeins að spá líka í skynseminni.”