Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Land við Öskju risið um nærri tíu sentímetra

15.09.2021 - 21:24
Myndir úr Sumarlandanum 2021 https://www.ruv.is/frett/2021/07/21/fa-aldrei-nog-af-obyggdunum
 Mynd: Sturla Holm Skúlason - RÚV
Ekkert lát er á landrisi við eldstöðina Öskju. Nýjustu GPS mælingar frá svæðinu sýna að land hefur risið um nærri tíu sentímetra frá því í byrjun ágúst. Benedikt Gunnar Ófeigsson sérfræðingur Veður­stof­unn­ar á sviði jarðskorpu­hreyf­inga, segir að þenslan sé stöðug og nokkur skjálftavirkni hafi mælst á svæðinu. Veðurstofan fylgist grannt með jarðhræringum við Öskju og segja til skoðunnar að fjölga mælitækjum á svæðið.

Rís á stöðugum hraða

„Landrisið sem hófst í Öskju í byrjun ágúst hefur haldið áfram á nokkuð stöðugum hraða, en heildar risið er farið að nálgast um tíu sentímetra. Samfara þessu landrisi höfum við einnig séð skjálftavirkni“ segir Benedikt.

Hann segir skjálftavirkni hefðbundna við Öskju, en þó sé hún yfirleitt í hrinum sem endist ekki í eins langan tíma og nú er orðið.

„Það hefur mælst viðvarandi skjálftavirkni, sem kannski er farin að vara lengur en oft gerist áður. Þannig að það er möguleiki við séum farin að sjá aðeins aukna skjálftavirkni í tengslum við landrisið“ segir Benedikt.

Ekki enn orðið vör við aukinn jarðhita

Benedikt segir þó að ekki sé enn um að ræða gosóróa. Það segir hann að geti þó breyst hratt.

„Ef þetta heldur áfram með svipuðum hraða og hefur verið, þá megum við búast við að skjálftavirkni fari að aukast. En við höfum ekki orðið vör við aukna jarðhita virkni eða slíkt, sem væri merki um að eitthvað meira væri að ske“ segir Benedikt.