Íslendingurinn: Var beðinn um að losa mig við Angjelin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslendingurinn, sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna morðsins í Rauðagerði, og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum, kannaðist ekki við að hafa átt í neinum deilum við Armando Beqiri. Hann hefði heyrt orðróm um að Armando vildi vinna honum mein vegna leka á gögnum þar sem fram kom að hann hefði verið upplýsingagjafi lögreglu. Á fundi sem haldinn var á Mathúsi Garðabæjar hefði komið í ljós að þær sögusagnir áttu ekki við rök að styðjast. Orðrómurinn hefði komið frá Angjelin Sterkaj.

Þau vitni sem hafa komið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur síðustu daga hafa kannast við að samskipti Armandos Beqiri og Angjelins Sterkaj hafi verið stirð, sum sögðust vita að hótanir hefðu gengið þar á milli en ekkert þeirra hefur getað varpað almennilegu ljósi á ástæður þess.

Þó hefur nafn Íslendingsins sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi, og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum Reykjavíkur, oftar en ekki borið á góma. Eitt vitni lýsti því þannig í skýrslutöku sinni í morgun að Íslendingurinn ætti enga vini og að Angjelin Sterkaj hefði verið kjölturakki hans.

Íslendingurinn gaf skýrslu eftir hádegi í dag. Lögreglan hafði á fyrstu stigum rannsóknarinnar upplýsingar um að menn á hans vegum hefðu komið að morðinu á Armando.  Þeir hefðu verið „fluttir inn“ til að passa hann af ótta hans við Armando og í gæsluvarðhaldsúrskurðum, sem birtir voru í sumar, kom fram að lögregla hefði einnig haft upplýsingar um að Íslendingurinn teldi að Armando hefðu verið boðnir miklir fjármunir fyrir að drepa hann. 

Fyrr á þessu ári voru síðan fluttar fréttir af því að gögnum hefði verið lekið á netið sem sýndu að hann hefði verið upplýsingagjafi lögreglu. Þennan leka hefur öðru hvoru borið á góma í réttarhöldunum.

Venju samkvæmt var það Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari, sem fékk fyrst að spyrja og hún vildi vita hver tengsl Íslendingsins við Angjelin Sterkaj væru. Við erum bara vinir, sagði Íslendingurinn. Armando Beqiri þekkti hann lítillega. Hann vissi lítið um aðdraganda þess að Armando var myrtur, hann hefði sjálfur ekki átt neitt sökótt við hann.

Hann sagðist hafa fengið símtal frá vinnufélaga Armandos og síðan skilaboð á samskiptaforritinu Messenger þar sem hann hefði verið beðinn um losa sig við Angjelin. Hann hefði í framhaldinu boðið þeim á fund á mánudeginum til að ræða það og mögulega dyravörslu.

Kolbrún spurði hvort þessi uppákoma tengdist eitthvað gögnum sem birtust á netinu um hlutverk hans sem upplýsingagjafa lögreglu og hvort honum hefði eitthvað verið hótað í tengslum við það. Íslendingurinn sagðist ekki hafa hert öryggisgæslu í kringum sig en hefði fengið félaga sína frá Tenerife, bæði til passa upp á sig en líka til að vinna hér á landi. "Enda var rólegt í ferðamannabransanum á Tenerife."

Hann sagðist hafa heyrt orðróm um það fyrir nokkru Armando hefði ætlað að vinna honum mein vegna lekamálsins.  Það mál hefði hins vegar verið leyst á fundi á Mathúsi Garðabæjar og í ljós kom að hann hefði ekki átt við rök að styðjast. Íslendingurinn sagðist hafa heyrt þennan orðróm frá Angjelin.

Hann kvaðst  sömuleiðis hafa heyrt einhverja sögu um sekt sem Armando og félagar hans hefðu ætlað að innheimta. Hann hefði kannað það og þessi saga hefði ekki reynst rétt.

Kolbrún bað Íslendinginn um að rifja upp margumrædda snjósleðaferð dagana fyrir og eftir morðið á Armando. Hann og fjölskylda hans hefðu gist á Sauðárkróki en Angjelin í bústað í Varmahlíð. Hann sagðist fyrst hafa heyrt að Armando væri dáinn þegar vinnufélagi Armandos hringdi í hann.    

Saksóknari spurði síðan nokkurra spurninga í röð; hvort hann hefði meðhöndlað byssuna sem var notuð, hvort hann hefði vitað hvað stæði til og hvort morðið hefði verið framið að undirlagi hans. Nei, svaraði Íslendingurinn, og ef hann hefði vitað af þessu hefði hann reynt að koma í veg fyrir það. 

Unnusta Íslendingsins gaf einnig skýrslu fyrir dómi og sagði málið hafa haft mikil áhrif á fjölskylduna. Það hefði verið skelfilegt þegar maðurinn hennar hefði verið sakaður um morð og hnepptur í gæsluvarðhald.

Verjandi Angjelins spurði hvort hún kannaðist við hótanir eftir að gögnum var lekið á netið þar sem unnusti hennar var sagður vera upplýsingagjafi lögreglu. Hún sagðist heyrt af því að einhverjir menn í undirheimunum væru ósáttir en það hefði ekkert verið meira en það. 

Hún sagðist líta á Angjelin sem fjölskylduvin, henni þætti mjög vænt um hann og börnin þeirra hefðu leikið sér saman.